Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sjaldgæfur rottukóngur rannsakaður í Eistlandi

21.10.2021 - 22:29
Mynd: EPA / EPA
Eistneskum bændum í Pölva brá heldur betur í brún í vikunni þegar rottukóngur fannst í hænsnakofanum. Slík fyrirbæri eru fáséð og hafa aðeins fundist tvisvar á þessari öld.

„Móðir mín fór inn í hænsnakofann að morgni, opnaði hurðina og rotturnar  voru þar fyrir innan. Þær höfðu grafið göng og virtust vera fastar,“ segir Johan Uibopuu, bóndasonur.

Þar höfðust rotturnar þrettán við, bundnar saman á hölunum og virtust una hag sínum vel. Svartrotturnar eru með langan hala og þar sem þéttleiki er mikill geta halarnir byrjað að flækjast saman þegar þær nota sama hreiðrið. Ef nóg er af fæðu geta þær fengið frið til að fjölga sér. Hver og ein rotta verður eins til tveggja ára.

„Þegar ég var barn heimsótti ég náttúrugripasafn í Tartul og sá rottukóng. Ég man hvað það var sjaldgæf sjón,“ segir Uibopuu sem setti rottukónginn í kassa og fór með hann á náttúrugripasafnið.

„Þetta er mjög sjaldgæft. Annars vegar vegna þess að rottukóngar eru sjaldgæfir. Á síðustu fjögur hundruð árum eru þekkt sextíu tilfelli. Hins vegar vegna þess að allar rotturnar eru enn á lífi,“ segir Andrei Miljutin, sýningarstjóri náttúrugripasafnsins í Tartul.

Sýningarstjórinn lagðist í rannsóknir og komst að því að þetta er aðeins annar rottukóngurinn sem finnst í heiminum á þessari öld. Hinn fannst einnig í Eistlandi árið 2005. Rottukóngur verður ekki langlífur, rotturnar þrettán voru svæfðar svefninum langa og verða til sýnis á náttúrugripasafninu í Tartu.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV