Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Myndlistin í tómarúmi vísindanna

Mynd: Bryndís Snæbjörnsdóttir og M / -

Myndlistin í tómarúmi vísindanna

21.10.2021 - 08:44

Höfundar

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson fylla upp í ákveðið tómarúm vísindanna á sýningunni Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri, segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Undanfarin tuttugu ár hafa þau Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson starfað saman á alþjóðavettvangi myndlistar. Fram að þessu hefur ekki svo mikið farið fyrir þeim í myndlistarsenunni hér á landi, en nú ber svo við að yfir standa tvær sýningar samtímis á verkum þeirra; annars vegar yfirlitssýningin Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum, í Gerðarsafni í Kópavogi, og hins vegar sýningin Vísitasíur, sem opnaði fyrir stuttu í Listasafninu á Akureyri. Auk þess að sinna stórum og þverfaglegum myndlistarverkefnum, er Bryndís einnig prófessor og fagstjóri meistaranáms við myndlistardeild Listaháskólans og Mark er prófessor við myndlistardeild Cumbria-háskóla í Bretlandi. Þau skilgreina list sína sem svokallaða rannsóknar- og samfélagslist, og miðla verkum sínum á menningarvettvangi í formi listsýninga annars vegar, og hins vegar á fræðilegum vettvangi í formi útgáfu og þátttöku í ráðstefnum.

Í rannsóknum sínum skoða þau Bryndís og Mark gjarnan samskipti þvert á tegundir, ýmist milli mannfólks og spendýra, mannfólks og fugla eða jafnvel mannfólks og plantna, eins og endurspeglast svo vel á yfirlitssýningunni í Gerðarsafni. Þannig afhjúpa þau hegðun okkar andspænis öðrum dýrum með því að skoða viðbrögð okkar við þeim, hvernig við tákngerum þau og skilgreinum, og ekki síst hvernig við aðgreinum okkur frá þeim. Þannig velta upp þau upp áríðandi og gagnrýnum spurningum um samspil manna og annarra tegunda, með áherslu á hugtök eins og sambýli, móttökur og gestrisni. Og þótt það sé í raun undantekning að manneskjur sjáist í verkum þeirra, þá er það maðurinn og mannleg hegðun sem er aðal viðfangsefnið.

Sem myndlistarmenn vinna þau verk sín að sjálfsögðu á forsendum listsköpunar, en einnig nýta þau sér óspart aðferðir úr öðrum fræðasviðum. Þau leita þekkingar og reynslu hjá almenningi sem og vísindafólki, eins og líffræðingum, landfræðingum, þjóðfræðingum eða grasafræðingum, svo dæmi séu nefnd. Aðferðin sem þau beita er að kafa ofan í æviskeið hvers einstaklings fyrir sig og fylgja honum eftir jafnvel á tilteknu tímabili. Og þannig gefst okkur áhugaverð innsýn inn í líf einstaklinganna, hvort sem það er mávur, refur, kind, ísbjörn, eða örsmátt fræ. Til þessa nota þau Bryndís og Mark tækni og verkfæri myndlistarinnar, eins og t.d. ljósmyndun, þar sem þau setja sig bókstaflega í spor annarra dýra og gera þannig tilraun til að horfa á heiminn með augum þeirra – að því marki sem það er hægt.

Mig langar í þessum pistli að fjalla sérstaklega um sýninguna Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri, en sú sýning stendur mér nokkuð nærri, þar sem ég hef starfað með listamönnunum í rannsóknarferlinu sem sýningin sjálf er afrakstur af. Það er þess vegna næsta víst að nokkurrar slagsíðu muni gæta í umfjölluninni, en hins vegar þykir mér sýningin það mikil tíðindi að ég tel rétt að gefa henni sérstakan gaum hér. Tíðindi – ekki aðeins fyrir myndlistarsviðið, heldur einnig fræðasamfélagið allt – því verkefnið er hið fyrsta á sviði myndlistar sem hlotið hefur styrk úr Rannsóknasjóði Rannís, og markar þar með þann vendipunkt að listsköpun er formlega orðin viðurkenndur hluti af vísindasamfélaginu hér á landi. Sýningunni er sýningarstýrt af Æsu Sigurjónsdóttur, dósent í listfræði við Háskóla Íslands, en hún er einn af samstarfsaðilum verkefnisins.

Sýningin er sum sé hluti af afrakstri þriggja ára rannsóknarverkefnis, sem ber yfirskriftina Ísbirnir á villigötum, og er unnið í samstarfi við fræðimenn við Háskóla Íslands sem og erlendar stofnanir. Viðfangsefnið er að skoða komur hvítabjarna til Íslands í sögulegu tillit og í samtímanum, og miðar að því að rannsaka hvaða stað ísbirnir hafa í okkar samfélagi, hvort sem það er í stjórnsýslunni og lagaumhverfi eða mannlegu minni, hugmyndum fólks og ímyndun okkar um þessi dýr, sem hafa óviljandi flækst hingað til lands frá ströndum Grænlands.

Þannig vinna þau með mörk menningar, hugarburðar og veruleika, og draga fram undirliggjandi merkingu sjónrænna og ritaðra heimilda, eins og birtist svo vel í klippimyndaröðinni Þegar eitt skipti endurtekur sig. Og með því að beina sjónum að tilteknum dýrum fremur en tegundinni sem slíkri, tekst þeim að skapa samkennd og samlíðan með tilteknum einstaklingum. Þetta kemur einna helst í ljós í verkinu Á heimsenda, sem samanstendur af 15 silkiprentum af skönnuðum beinum af kvendýri sem rak á land að Hrauni á Skaga árið 2008, og hlaut sorgleg örlög sín þar. Einnig eru verkin Þverárfjall 3. júní 2008 og Hraun 17. júní 2008 afar áhrifarík, en þau sýna okkur raunverulegar beinagrindur tveggja bjarndýra í sérútbúnum geymslukössum. Þetta eru beinagrindur af karldýri og kvendýri sem hafa verið fengnar að láni frá Náttúrufræðistofnun Íslands, en liggja nú hér samanþjappaðar niður í einkennilega litlar og meinlausar hrúgur.

Með þessari sértæku og einstaklingsmiðuðu aðferð tekst þeim Bryndísi og Mark ekki eingöngu að vekja samkennd og samlíðan, heldur einnig að afbyggja „öðrun“ dýranna í mannheimum – án þess þó að blætisvæða dýrin eða rómantísera náttúruna á nokkurn hátt. Að vísu er alltaf hætta á að við sem áhorfendur föllum í gildru manngervingar og tilfinningasemi, enda getum við sem manneskjur illa sloppið undan því að upplifa heiminn með þeim skynfærum og reynslu sem við búum yfir. Eitt af því sem forðar okkur hins vegar frá þessari gildru eru þær frásagnir bæði leikmanna og sérfræðinga sem þau listamennirnir setja fram á óritskoðaðan og óbreyttan hátt. Þessar beinu frásagnir sprengja upp sjónarhornið og skapa rými fyrir ólíka túlkun og ólík tengsl, og draga þannig úr prédikunartóninum, sem gjarnan fylgir myndlist af þessu tagi. Þetta eru frásagnir sem alla jafna heltast úr lestinni í hefðbundnu rannsóknarferli, þar sem þær eru meðhöndlaðar sem afskorningar eða aukaafurðir vísindanna. Þær eru í raun affallið sem nær ekki inn þekkingarsköpunina og endar aldrei í ritrýndri grein eða bók. Dæmi um þetta er verkið Ursus Maritimus Islandia 1880-2016, en einnig kemur þetta vel fram mörgum verkum á sýningunni í Gerðarsafni, eins og t.d. verkinu You Must Carry Me On og myndröðinni í tengslum við rannsóknarverkefnið Beyond Plant Blindness, sem þau unnu í samstarfi við Grasagarðinn í Gautaborg.

Þannig má því segja að verk þeirra Bryndísar og Mark fylli ákveðið tómarúm vísindanna. Hér er myndlistin orðin að viðurkenndum þekkingarmiðli, um leið og hún er einnig aðferðafræðin sjálf. Á sama tíma eru verkin engin endanleg niðurstaða, heldur kalla þau öllu fremur á nýjar spurningar og skapa rými fyrir nýja möguleika í samskiptum okkar mannfólksins við dýr, eins og umkomulausa hvítabirni.

Tengdar fréttir

Pistlar

Snemmbúin sköpunarsaga íslenskrar myndlistar

Pistlar

Útvíkkun einsleitrar myndlistarsenu

Pistlar

Iða feminískra strauma í Listasafni Árnesinga

Pistlar

Sköpunarferlið að baki hversdagslegra hluta