Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Losaði sig við sprengju úr bílskúrnum í Þorlákshöfn

Mynd úr safni - Mynd: Christopher Lund / Hafnarstjórn Þorlákshöfn
Mikill viðbúnaður var í morgun í Þorlákshöfn þegar grunur lék á að sprengjum hefði verið komið fyrir á sorpsvæði bæjarins. Sprengjurnar reyndust eftirlíkingar, en sprengjusérfræðingar fengu engu að síður alvöru sprengju til meðferðar.

„Þegar starfsmenn mættu til vinnu í morgun þá fundu þeir grunsamlegan pakka með dótaríi í sem leit út eins og leikmaður myndi gera sér í hugarlund að sprengja gæti litið út. Þeir tóku mynd af þessu og sendu á lögregluna á Selfossi og bara eftir nokkrar mínútur þá var aðgerðaáætlun greinilega komin í gang og tuttugu mínútum síðar sáum við ljós blikka við móttökusvæðið hjá okkur,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss.

Hátt í tuttugu lögreglu- og sérsveitarmenn og sprengjusérfræðingar frá Landhelgisgæslunni komu á staðinn og stóðu aðgerðir í hálfa fjórðu klukkstund. Útkallið var á gámasvæði sorphirðu bæjarins og voru hlutirnir í einum gámnum. Samkvæmt lýsingu voru þetta farsímar sem festir voru við rör eða aðra hluti. Þorsteinn M. Kristinsson varðstjóri hjá lögreglunni á Selfossi segir að málið sé til rannsóknar. 

Sem betur fer reyndist engin sprengja vera í þessum gámi, en það fór samt aldrei svo að sprengjusérfræðingar fengju ekki raunverulega sprengju í hendurnar til að gera óvirka. 

„Ég veit að einn bæjarbúi notaði tækifærið og kom sprengju sem hann var búinn að vera með í bílskúrnum hjá sér frá stríðsárunum, sem hann fann þegar hann var krakki og kom til sprengjusveitarinnar þannig að þetta var alla vega ekki ferð til einskis.“
Þannig að það var alla vega eins sprengja sem þeir gerðu óvirka?
„Það er einni sprengjunni minna.“
Heldurðu að það séu margir bæjarbúar svona vopnum búnir?
„Nei, ég á nú ekki von á því enda er þetta friðsæll bær og fólk heiðvirt í alla staði.“

Fréttastofa ræddi við viðkomandi bæjarbúa, en hann segist hafa fundið sprengjuna fyrir mörgum árum í fjörunni við Þorlákshöfn þegar hann var þar á gangi og er feginn að vera laus við hana. Elliði sergir bæjarbúa ekki hafa kippt sér upp við þetta, fyrst í morgun hafi þeir ekkert vitað hvað var á seyði.

„Og fólk sannarlega forvitið, en ég fann engan ótta eða neitt svoleiðis enda búið að rýma svæðið og full tiltrú á viðbragðsaðilum.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV