Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lögmaður Guðmundar segir ummæli formanns dæma sig sjálf

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV
Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður Guðmundar Gunnarssonar, oddvita Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, segir að betur hefði farið á því að formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu hefði lesið kæru frambjóðandans gaumgæfilega, tekið hana til sín í stað þess að skrumskæla efni hennar. Sú ásökun sem formaður yfirkjörstjórnar telji vera rangar sakargiftir sé ekki að finna í kæru Guðmundar.

Þrír úr yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafa sent bréf til undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa þar sem kærum vegna Alþingiskosninganna er svarað. 

Undir bréfið skrifar Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar.  Og þar fá sumir þeirra sem hafa kært kosninguna kaldar kveðjur og tveir frambjóðendur eru sakaðir um að bera yfirkjörstjórnina röngum sökum.

Í bréfinu er því meðal annars haldið fram að í kæru Guðmundar Gunnarsson sé að finna aðdróttanir sem séu mjög alvarlegar, sérstaklega vegna þess að þær séu algerlega órökstuddar. Orðrétt segir Ingi: „Aðdróttanir um að auðum kjörseðlum hafi verið breytt ,,í seðil sem virðist vera gilt atkvæði“ eða gildu atkvæði hafi verið breytt í ógilt er harðlega mótmælt“. Þetta segir Ingi að í raun sé „um rangar sakargiftir að ræða sem eru refsiverðar.“

Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður Guðmundar, segir þessi ummæli Inga dæma sig sjálf því þessa ásökun sé hvergi að finna í kæru Guðmundar. 

Í kærunni segir: „Almennt verður að telja að fækkun auðra seðla sé tortryggilegri en breyting á fjölda annarra atkvæð, enda er mögulegt að breyta auðum seðli í atkvæði til einstaks framboðs án þess að nokkur merkjanleg eða rekjanleg ummerki um svindl sjáist á seðlinum við endurtalningu.“

Sigurður segir í samtali við fréttastofu að betur hefði farið á því að formaður yfirkjörstjórnar læsi kæruna gaumgæfilega, tæki hana til sín „í stað þess að skrumskæla efni hennar.“

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, segir á Facebook-síðu sinni að það sé algjörlega fráleitt og ómaklegt að formaður yfirkjörstjórnar saki Lenyu Rún, frambjóðanda flokksins, um rangar sakargiftir. „Lenya Rún gerði ekki annað en að benda á þá staðreynd í sinni kæru að formaðurinn var einn með óinnsigluðum kjörgögnum í töluverðan tíma áður en aðrir kjörstjórnarmeðlimir mættu á staðinn vegna fyrirhugaðrar endurtalningar.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV