Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grillað í mannskapnum

Mynd: Hjálmar / RÚV

Grillað í mannskapnum

21.10.2021 - 16:40

Höfundar

Hjálmar og Prins Póló velta fyrir sér stöðunni á pallinum þegar vetur konungur bankar upp á, í nýju lagi sínu - Grillið inn í Undiröldu kvöldsins. Einnig eru í boði ný lög frá rokksveitunum Mono Town og Ottoman, angurvært popp Mimru og Hudson Wayne, landinn Þorsteinn Einarsson sem er að gera það gott í Austurríki og að lokum popppartý frá félögunum Jóni Arnóri og Baldri.

Hjálmar og Prins Póló - Grillið inn

Hljómsveitin Hjálmar og Prins Póló velta fyrir sér komandi vetri og ástandinu á pallinum í nýju lagi sem heitir Grillið inn. Það er Prins Svavar Pétur Póló Eysteinsson sem á lag og ljóð auk þess að syngja lagið við undirleik Hjálma en það var tekið upp í Hljóðrita í Hafnarfirði.


Mono Town - Because Of You

Hljómsveitin Mono Town hefur sent frá sér breiðskífuna Time Vol.I og sem fyrr eru það Börkur Hrafn Birgisson, Daði Birgisson og Bjarki Sigurðsson sem semja, spila og útsetja alla tónlist sveitarinnar ásamt því að hljóðrita. Önnur sem koma við sögu á nýju plötunni eru Kristófer Rodriguez Svönuson sem spilar á trommur og ásláttarhljóðfæri. Una Sveinbjarnardóttir spilar á fiðlu og Sigurður Bjarki Gunnarsson spilar á selló.


Ottoman - Perfect Way To Go

Íslenska rokksveitin Ottoman gaf nýverið út plötuna Heretic á vegum hins nýstofnaða útgáfufyrirtækis Gaukurinn Records. Lagið Perfect way to go segja þeir ferskan blæ í íslensku rokki sem sameini allt sem Ottoman stendur fyrir. Sveitin er skipuð söngvaranum og gítarleikaranum Stefáni Laxdal, bassaleikaranum Helga Durhuus, Nils Martin Johansson leikur á gítar og Gottskálk Daði Bernhöft Reynisson á trommur.


Mimra - Out of the Dark

María Magnúsdóttir eða MIMRA eins og hún kallar sig hefur sent frá sér Out of the Dark. Lagið vann hún með Stefáni Erni Gunnlaugssyni með aðstoð frá Magnúsi Tryggvasyni Elíassen á trommur en Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir og Sylvía Hlynsdóttir spiluðu inn brass. Lagið er partur af fimm laga plötu sem MIMRA gefur út snemma á næsta ári með styrkjum frá Hljóðritasjóði Rannís, Upptökusjóði STEF, Tónskáldasjóði Bylgjunnar og Stöðvar 2 og Menningarsjóði FÍH.


Thorsteinn Einarsson - Bridges Burn

Tónlistarmaðurinn Thorsteinn Einarsson er fæddur á Íslandi en alinn upp í Austurríki og hefur vegnað vel við tónlistarsköpun þar í landi þrátt fyrir að fáir þekki til hans hér. Hans nýjasta lag heitir Bridges Burn og fylgir eftir vinsældum lags hans Shakles sem fór á toppinn yfir mest spiluðu lögin í Austurríki á dögunum.


Hudson Wayne - Feelings

Hljómsveitin Hudson Wayne hefur sent frá sér lagið Feelings en það eru þeir Þráinn Óskarsson söngvari og gítarleikari, Ólafur Jónsson gítarleikari, Gylfi Blöndal bassaleikari, Birgir Viðarsson hljómborðsleikari, Þormóður Dagsson trommuleikari sem skipa sveitina.


Jón Arnór og Baldur - Partý í kvöld

Partý í kvöld (Arí Arí Ó) er þriðja lagið sem Jón Arnór og Baldur senda frá sér. Í laginu kveður við nýjan tón miðað við fyrri lög sem þeir félagar hafa sent frá sér að þeirra sögn en lagið er samið af þeim félögum og pródúserað af amerískum pródúser sem starfað hefur m.a. með Katy Perry og Selenu Gomes