Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fékk 16 ára fangelsi fyrir morðið í Rauðagerði

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Angjelin Sterkaj í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai í Rauðagerði um miðjan febrúar. Hinir þrír sakborningarnir í málinu voru sýknaðir..

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, krafðist þess að dómurinn yfir Angjelin ætti að vera á bilinu 16 til 20 ára en þó nær 20 árum.

Hún sagði morðið hafa verið vel skipulagða aftöku og gaf lítið fyrir játningu hans í málinu, hún hefði ekki komið fram fyrr en lögreglan hefði lagt fyrir hann ítarleg sönnunargögn í þrettán liðum sem öll bentu til sektar hans. 

Angjelin hélt því fram að hann hefði framið morðið í sjálfsvörn og því ætti ekki að gera honum refsingu. Þetta hefði verið örþrifaráð föður sem hefði verið hótað lífláti af mönnum sem lögregla teldi að tengdust skipulagðri glæpastarfsemi. Og að hótanirnar hefðu bæði beinst að honum og syni hans.

Hin þrjú sem voru ákærð í málinu, þau Claudia Sofia Carvahlo, Shpetim Qerimi og Selivrada Mura neituðu öll sök og sögðust ekki hafa vitað hvað Angjelin hefði ætlað sér að gera í Rauðagerði laugardaginn 13. febrúar. Saksóknari taldi að þau ættu ekki að fá vægari refsingu en fimm áru. 

Morðið í Rauðagerði er ein umfangsmesta morðrannsókn sem komið hefur inn á borð lögreglunnar hér á á landi. Um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi og fjórtán höfðu réttarstöðu sakbornings.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV