Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bjargaði meðvitundarlausum starfsmanni á Old Trafford

21.10.2021 - 13:54
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Gunnar Rúnar Ólafsson, varaslökkviliðsstjóri á Akureyri, gleymir seint skoðunarferð á fótboltavöllinn Old Trafford í Manchester í byrjun mánaðarins. Þar bjargaði hann manni í andnauð sem féll meðvitundarlaus niður á leikvanginum.

Gunnar fór ásamt þremur sonum sínum á leik Manchester United og Everton 2. október. Í skoðunarferð um Old Trafford leikvanginn, daginn fyrir leik, féll starfsmaður vallarins meðvitundarlaus niður rétt fyrir framan þá feðga.

Andaði ekki og var orðinn blár í framan

Gunnar, sem er bráðatæknir, bauð sig strax fram til aðstoðar. „Þeir hleypa mér að manninum þarna og hann er þá í mjög öflugum krampa og er orðinn frekar bláleitur í framan og andaði ekki. Ég fór og velti honum í hliðarlegu og opnaði öndunarveginn hjá honum og bað um að fá súrefni. Sem ég fékk, töskuna af leikvangnum. Þetta var krampi sem stóð yfir í sjö mínútur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Rúnar Ólafsson
Feðgarnir saman á leik Manchester United og Everton

Fluttu manninn með fólksbíl á sjúkrahús

Með þessum búnaði gat Gunnar komið önduninni aftur í gang. Síðan þurfti að koma manninum á sjúkrahús en þá var nærri eins og hálfs tíma bið eftir sjúkrabíl. „Þá stakk ég upp á því við yfirmann vallarmála þarna á Old Trafford að við myndum bara keyra með hann á sjúkrahús - sem við og gerðum. Fórum í 40 mínútna bílferð í gegnum Manchester til þess að fara með hann á sjúkrahús. Við hittum þar konu þessa manns og þar gat ég gefið sögu um hvernig þetta hafði allt litið út og hvað hafði gerst.“

Synirnir í besta yfirlæti á VIP-klúbbi Old Trafford

Synir Gunnars urðu auðvitað eftir á vellinum en þegar hann hringdi af sjúkrahúsinu til athuga um þá fékk hann að heyra að þeir hefðu það fínt. „Og þá voru þeir bara í besta yfirlæti á VIP-klúbbi Old Trafford að borða og drekka allt það sem þá langaði og þeir fengu sögustund þarna um völlinn.“

Bjargaði manninum frá frekari skaða

Gunnar er alveg viss um að hans kunnátta og reynsla hafi bjargað því að ekki fór verr og maðurinn er á batavegi. „Ég vil kannski ekki ganga svo langt að segja að ég hafi bjargað lífi hans. En ég allavega klárlega hjálpaði til við að hann varð ekki skertur af þessu.“

Hægt er að hlusta á viðtal við Gunnar í spilaranum hér að ofan. Þar kemur reyndar fram að hann er glerharður Liverpool-maður.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV