Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Á flóknasta staðnum í faraldrinum til þessa

21.10.2021 - 18:03
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Við erum á flóknasta staðnum í faraldrinum til þessa gagnvart grunnskólunum, segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Um 50-60 smit hafa greinst að jafnaði á dag þennan mánuð en lang stærsti hópurinn sem er nú í einangrun eru börn á aldrinum sex til tólf ára. Mjög misjafnt er eftir hverfum og skólum hversu mikið er um smit. Í þrettán skólum hefur ekkert smit greinst en þurft hefur að setja af stað umfangsmikla rakningu allt að tíu sinnum í fjórum skólum, með tilheyrandi röskun á skólastarfi.

Helgi segir erfiðara að hefta útbreiðslu nú, því smitin séu svo lúmsk og komi stundum ekki í ljós fyrr en foreldrarnir veikjast. „Þetta er töluvert flækjustig sem við erum núna að glíma við og myndi ég segja að gagnvart grunnskólunum að þá erum við á flóknasta staðnum fram að þessu, vegna þess að krafan um opnun er svo mikil en svo kemur á móti að okkur ber að framfylgja reglum um að rekja og greina hvar smit er til þess að hefta frekari útbreiðslu. Smitin eru líka svo lúmsk, það var til dæmis smit í einum skóla núna sem uppgötvaðist eingöngu af því að það var foreldri sem að veiktist, og þá var töluverður fjöldi barna sem var búinn að smitast,“ sagði Helgi í Síðdegisútvarpinu á Rás2.