Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfirkjörstjórn ósammála um hvor talningin eigi að gilda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis var ekki sammála um að telja aftur atkvæði  í Alþingiskosningunum í síðasta mánuði og hvor talningin ætti að gilda.

Tveir yfirkjörstjórnarmenn standa ekki að greinargerð yfirkjörstjórnar til Alþingis vegna kærumála sem risið hafa vegna talningar, endurtalningur og meðhöndlun kjörgagna.  Það er vegna þess að viðkomandi telja ekki rétt að tjá sig um málið á meðan sakamál vegna framkvæmda kosninganna er til meðferðar hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi. Eins og fram hefur komið hefur lögreglustjórinn ákveðið að sekta kjörstjórnina fyrir brot á kosningalögum, það er að segja, fyrir að hafa ekki innsiglað kjörgögn. Formanni yfirkjörstjórnar er gert að greiða 250 þúsund krónur í sekt, en öðrum í kjörstjórn 150 þúsund krónur.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar ríkir ekki sátt innan yfirkjörstjórnarinnar um hvernig framkvæmd talningar gekk fyrir sig. Laust fyrir hádegi á sunnudeginum hafði formaður landskjörstjórnar samband við oddvita yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi og skýrði frá að lítill munur væri á atkvæðafjölda að baki jöfnunarsætum  í Norðvestur- og Suðurkjördæmi og því beint til yfirkjörstjórnar hvort tilefni væri til frekari skoðunar. Endurtalning í Suðurkjördæmi staðfesti fyrri niðurstöðu, en í Norðvesturkjördæmi breyttist hún. Yfirkjörstjórnarmenn sögðu við skýrslutöku hjá lögreglu að engin umræða hafi átt sér stað innan stjórnarinnar um endurtalningu. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru ekki allir yfirkjörstjórnarmenn sammála um  hvaða niðurstaða eigi að gilda, hvort það sé upphafleg talning eða endurtalningin.