Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Yfirkjörstjórn boðið að ljúka talningarmálinu með sekt

20.10.2021 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur sent allri yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis sektargerð þar sem henni er boðið að ljúka málinu með sekt. Samkvæmt heimildum fréttastofu er yfirkjörstjórnin sektuð fyrir að hafa látið atkvæði liggja óinnsigluð eftir að talningu lauk.

Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, kærði talninguna til lögreglustjórans á Vesturlandi eftir þingkosningarnar í september. Hann var í hópi þeirra fimm frambjóðenda sem misstu þingsæti sitt eftir að atkvæði í kjördæminu voru endurtalin.

Rannsókn málsins lauk í síðustu viku. Málið fór til meðferðar hjá ákærusviði lögreglustjórans á Vesturlandi og í framhaldinu voru sendar út sektargerðir til allra í yfirkjörstjórninni þar sem þeim var boðið að ljúka málinu með sekt.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst snýr sektargerðin einna helst að því að atkvæði hafi legið óinnsigluð eftir fyrstu talningu. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu fékk Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar, hæstu sektargerðina eða 250 þúsund krónur. „Ég vil ekki staðfesta neitt slíkt, sé enga ástæðu til þess og hef ekkert um þetta að segja,“ segir Ingi í samtali við fréttastofu. Aðrir í yfirkjörstjórninni fengu sektargerð upp á 150 þúsund krónur.

Ef fólkið fellst ekki á að greiða sektina þarf lögreglustjórinn á Vesturlandi að ákveða hvort hann gefur út ákæru. Málið myndi þá rata fyrir dómstóla. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur það ekki gerst áður að yfirkjörstjórn hafi verið send sektargerð eftir kosningar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV