Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja ákæra Bolsonaro fyrir glæpi gegn mannkyni

epa09519831 (FILE) - Brazilian President Jair Bolsonaro gestures during a ceremony at the Palacio do Planalto in Brasilia, Brazil, 07 October 2021 (reissued 12 October 2021). An Austrian campaign group on 12 October 2021 filed a complaint to International Criminal Court (ICC) accusing Brazilian president Bolsonaro of 'crimes against humanity' over his handling of the Amazonas deforestation.  EPA-EFE/JOEDSON ALVES
 Mynd: EFE-EPA
Þingmenn í öldungadeild brasilíska þingsins vilja að Jair Bolsonaro forseti verði ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni fyrir að hafa með vanrækslu valdið því að mörg hundruð þúsund landsmenn létust úr COVID-19. Rannsókn á störfum stjórnvalda hefur flett ofan af hneykslismálum og spillingu.

Þingnefnd öldungadeildarinnar hefur síðastliðna sex mánuði rannsakað viðbrögð Bolsonaros forseta og stjórnar hans við kórónuveirufaraldrinum. Í tólf hundruð blaðsíðna uppkasti að skýrslu sem bíður atkvæðagreiðslu nefndarmanna er lagt til að forsetanum verði birtar níu ákærur. Í fyrsta uppkasti skýrslunnar vildu nefndarmenn að hann yrði ákærður fyrir manndráp og þjóðarmorð á frumbyggjum Brasilíu. Sá hluti hefur verið þurrkaður út, en þess í stað lagt til að hann verði meðal annars ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni, skjalafals og að hafa hvatt til glæpaverka.

Bolsonaro hefur að sögn brasilískra fjölmiðla vísað ásökunum nefndarmanna á bug. Þarna séu pólitískir andstæðingar að leita eftir höggstað á honum. Fyrr á þessu ári hvatti hann landsmenn að hætta öllu COVID-væli þegar dauðsföll af völdum farsóttarinnar fóru yfir þrettán hundruð á sólarhring.

Hvort sem skýrsla þingnefndar öldungadeildarinnar leiðir til ákæru eða ekki er talið ljóst að efni hennar á eftir að valda Bolsonaro erfiðleikum, þegar kosningabarátta hans hefst fyrir alvöru fyrir endurkjöri í kosningum á næsta ári.