Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óhreinsað skólp frá tugþúsundum heimila fer beint í sjó

20.10.2021 - 17:07
Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir / Ljósmynd
Óhreinsað skólp frá tugþúsundum heimila á höfuðborgarsvæðinu mun renna út í Faxaflóa næstu þrjár vikurnar vegna viðgerðar á röri. Fólk er beðið um að forðast fjörur og sjóböð við norðanverða strönd Reykjavíkur vegna kólígerlamengunar. Óvíst er hvort mengunin mun dreifa úr sér.

Sökudólgurinn er svokallað trompet sem er tíu metra langt rör sem vegur um eitt og hálft tonn og er tengt öðru röri sem liggur út í sjó og hreinsað skólpið kemur út úr því um fjóra kílómetra frá landi. Trompetið er farið að leka og nokkurn tíma tekur að smíða nýtt og koma því fyrir.

„Það þýðir það að skólp rennur í sjó óhreinsað eða grófhreinsað eingöngu,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Veitna. „Það fylgja þessu kólígerlar og það mun fylgja mengun sem verður af þessu.“

Um stöðina renna 1.500 lítrar af skólpi á hverri sekúndu og það kemur af stórum hluta höfuðborgarsvæðisins, um 40 þúsund heimilum í Garðabæ, Seltjarnarnesi, Kópavogi og vesturhluta Reykjavíkurborgar.

Ólöf segir að magn kólígerla verði mælt reglulega og fjörur verði gengnar meðan hreinsistöðin verður lokuð.

Líftími kólígerla í sjó er mismunandi eftir árstíma. Nú er hann átta til níu klukkustundir eftir að þeir koma út í sjó og Ólöf segir óvíst hvort þeir nái að berast á aðrar strendur á þeim tíma.  „Við erum að fara með þá langt yfir viðmiðunarmörk. Það er alveg klárt. Við vitum að það verður mikil mengun við norðanverða strönd Reykjavíkurborgar. Hvernig það verður annars staðar vitum við minna um, það er svo margt sem hefur áhrif á það; veður og straumar og fleira. Þannig að við biðjum fólk um að vera ekki í sjó eða fjörum við norðanverða ströndina,“ segir Ólöf.

Er líklegt að það verði aukin mengun í Nauthólsvík þar sem margir stunda sjóböð? „Við teljum það afar ólíklegt. Enda lifa þessir gerlar ekki lengi í sjó, en við getum ekki fullyrt það.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir