Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mygla í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ

20.10.2021 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mygla hefur greinst í elsta grunnskóla Reykjanesbæjar, Myllubakkaskóla. Starfsmenn, þar á meðal skólastjórinn, eru komnir í veikindaleyfi vegna myglunnar.

Víkurfréttir greina frá þessu á forsíðu sinni í dag. Illa hefur gengið að uppræta mygluna, sem greindist fyrst í skólanum fyrir tæpum tveimur árum. Haft er eftir Helga Arnarssyni, sviðsstjóra fræðslusviðs bæjarins að málið hafi reynst erfiðara en áætlað var. Sjö skýrslur hafi verið unnar eftir sýnatökur og þær sýna allar einhverja myglu. Hún hefur fundist á mörgum stöðum í byggingunni. 

Hann segir að reddingum sem eru í gangi verði hætt og ráðist verði í heildstæðari aðgerðir. Eins og sakir standa er tengibygging skólans innsigluð og lokuð, en allt annað húsnæði skólans er í notkun. Bæjarráð Reykjanesbæjar tók málið fyrir á seinasta fundi sínum og lagði til að stofnaðir verði tveir starfshópar sem taki strax til starfa til að kanna umfang vandans og leita leiða til úrbóta eins fljótt og auðið er. Annar starfshópurinn á að skoða aðgerðir sem snúa að núverandi skólahúsnæði en hinn að finna lausn með bráðabirgðahúsnæði, ef þess þarf. 

Um 370 nemendur eri í Myllubakkaskóla og á fjórða tug kennara starfa við skólann.