Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Leggja til að Bannon verði ákærður

epa09533296 Members of the House select committee investigating the January 6 attack prepare to recommend citing Steve Bannon for criminal contempt of Congress and refer him to DC's United States Attorney for prosecution in the Cannon House Office Building in Washington, DC, USA, 19 October 2021. Bannon, an adviser to former US President Donald Trump, is claiming executive privilege even though he was not a member of Trump's administration at the time of the attack.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nefndarmenn bandarískrar þingnefndar sem rannsakar innrásina í þinghúsið í ársbyrjun samþykkti samhljóða í gærkvöld að leggja til að Steve Bannon, einn helsti bandamaður fyrrverandi Bandaríkjaforseta, verði ákærður fyrir vanvirðingu. Bannon gaf sig ekki fram til yfirheyrslu hjá nefndinni þrátt fyrir að honum hafi verið birt stefna. 

Bannon svaraði stefnunni á þann hátt að hann ætlaði ekki að mæta fyrir nefndina eða færa henni gögn fyrr en búið væri að útkljá hvort friðhelgi forsetaembættisins eigi við um Donald Trump, fyrrverandi forseta. Þingnefndin metur stöðu Bannons sem svo að hann geti ekki beitt þeim rökum og ákvað því að sækja hann til saka. 

Að sögn AFP fréttastofunnar telja sérfræðingar kröfur Trumps um að hann geti komið í veg fyrir að Bannon mæti fyrir nefndina afskaplega hæpnar. Friðhelgi forsetaembættisins á að sögn þeirra ekki við um fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þar að auki var Bannon ekki embættismaður í stjórn Trumps á þeim tíma sem nefndin vill gögn um.

Tillaga nefndarinnar fer nú fyrir Bandaríkjaþing þar sem kosið verður um hana. Telja má líklegt að hún verði samþykkt þar, því þar eru Demókratar í meirihluta. Steny Hoyer, leiðtogi meirihlutans í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sagði í yfirlýsingu í gær að nauðsynlegt sé að komast til botns í aðdragandanum að innrásinni í þinghúsið þann sjötta janúar. Verði tillagan samþykkt fer málið á borð dómsmálaráðuneytisins, sem ákveður hvort Bannon verði ákærður. Verði Bannon dæmdur á hann yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi, en mestar líkur eru á að hann verði sektaður að sögn AFP.