Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Katrín ræddi við Guðna á Bessastöðum

20.10.2021 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Forsetaembættið - forseti.is
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi gang stjórnarmyndunarviðræðna við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, í morgun.

Þau ræddu áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarflokkanna þriggja en á vef forsetaembættisins segir að stefnt sé að því að þau ræði saman aftur í byrjun næstu viku. Formenn flokkanna hafa sagt að þau ætli að gefa sér nokkrar vikur í að ljúka viðræðunum, en þær hafa nú staðið í um þrjár vikur. 

Formenn flokkanna hafa nefnt sérstaklega loftslagsmál og húsnæðismál og stóra málaflokka sem séu mikið ræddir. Áfram verði lögð áhersla á loftslagsmálin en flokkarnir hafa ólíka sýn á það. Bjarni Benediktsson ,formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að eitthvað verði að gera í því þunglamalega fyrirkomulagi sem rammaáætlun er þegar teknar séu ákvarðanir um græna orku. „Við erum spennt fyrir tækifærum til þess að nýta græna orku, byggja upp atvinnu, fara í orkuskiptin og svo framvegis. Og við viljum leggja áherslu á það sjálfstæðismenn í þessum viðræðum,“ sagði Bjarni Benediktsson fyrir helgi. 

Katrín sagði fljótlega eftir að viðræðurnar hófust að gert yrði ráð fyrir viðræðum í nokkrar vikur áður en ritun stjórnarsáttmála hæfust. Þær hafa staðið í um þrjár vikur og lítið frést af því hversu langt þær eru komnar. Katrín hefur sagst búast við því að lending náist í þessum stærstu málum og í ljósi þess að þessir flokkar hafa setið í stjórn í heilt kjörtímabil er líklegt að línurnar séu farnar að skýrast í nýjum stjórnarsáttmála. Líklega er þó ekki von á stórtíðindum af viðræðunum fyrr en eftir helgi. Þá á Katrín bókaðan fund með Guðna en hefð er fyrir því að halda forseta upplýstum um gang stjórnarmyndunarviðræðna.