Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gengi rafmyntarinnar Bitcoin aldrei verið hærra

20.10.2021 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Gengi rafmyntarinnar Bitcoin hefur aldrei verið hærra og stóð gengið í rúmlega 66.974 dollurum í dag. Virði myntarinnar hefur hækkað um fimm prósent það sem af er degi og um rúmlega 129 prósent frá byrjun árs.

„Þetta er vissulega skemmtilegt og sérstaklega fyrir þá sem sjá þetta sem fjárfestingakost. Það eru líka mjög margir sem eru að setja sinn sparnað í þennan eignaflokk. Fyrir þeim snýst málið um að geyma verðmæti sín á stað þar sem þau rýrna ekki með tímanum og þá er auðvitað ánægjulegt að fá staðfestingu á þeirri trú að þessi eignaflokkur sé að halda áfram að eflast og styrkjast,“ segir Daníel Fannar Jónsson, sem hefur setið í stjórn Rafmyntaráðs frá 2019.

Daníel segir nokkra þætti skýra mikla hækkun undanfarið. „Fleira og fleira fólk er að átta sig á og skilja hvað Bitcoin er. Þegar við horfum síðan á síðustu tólf mánuði þá er búin að vera frekar sterk bylgja af stórum aðilum úr fjárfestingaheiminum, stofnunum og fyrirtækjum sem hafa verið að taka skrefið,“ segir Daníel.

Þá var fyrsti bandaríski kauphallarsjóðurinn sem fjárfestir í Bitcoin tekinn í gagnið í dag. „Það er frekar stórt skref í því að gefa öllum markaðnum aðgengi að því að setja sínar fjárfestingar í Bitcoin. Það er líklega það sem er að ýta mjög sterkt undir þessa bylgju sem við sjáum akkúrat núna,“ segir Daníel.

Virði myntarinnar féll nokkuð hratt í sumar og stóð í tæplega 30 þúsund dollurum í júlí. Þá höfðu Kínverjar nýlega bannað Bitcoin-námugröft og Elon Musk, forstjóri Tesla sem hefur ítrekað haft mikil áhrif á gengi rafmynta, sagt að fyrirtækið myndi ekki lengur taka við Bitcoin.

„Við vorum ekki mjög hrædd,“ segir Daníel. „Þessi styrkur hefur alveg verið til staðar síðustu tólf mánuði þó að það komi svona tímabundnar dýfur oft.“ Hann bendir á að sífellt fleiri nýti tækifærið og kaupi Bitcoin sem langtímafjárfestingu þegar virðið minnkar verulega.

Hvernig telur þú að gengið þróist á næstu mánuðum?
„Það er auðvitað alltaf mjög erfitt að segja en þegar það myndast svona meðbyr og það eru svona miklar breytingar þá er mikill styrkur í þeim hreyfingum sem eru, en ég er langt frá því að vera spámaður um þetta. Ég og flestir í kringum mig eru að horfa á þetta til mjög langs tíma,“ segir Daníel.

„Það verður ekkert prentað meira Bitcoin í framtíðinni. Það er takmarkað hversu mikið Bitcoin verður til og þess vegna er ört stækkandi hópur sem sér þetta sem hinn fullkomna pening,“ segir hann.