Í Laxárdal II er rótgróið fjölskyldubú sem hóf rekstur árið 1979. Frá árinu 2008 hafa bændur í Laxárdal ræktað bygg í svínafóður á 300 hektara akri í Gunnarsholti á Rangárvöllum.
Í dag er megnið af fóðrinu heimafengið. Fyrir þremur árum ákvað fjölskyldan í Laxárdal síðan að opna sína eigin kjötvinnslu, í Árnesi, og um leið litla kjötbúð. Hluti af því sem þar er unnið verður að áleggi á pizzur sem fjölskyldan í Laxárdal flakkar með á milli þéttbýlisstaða í uppsveitum Árnessýslu og hefur gert í átján ár.
„Það er gaman að geta gert sem mest sjálfur og það skiptir máli að vita hvaðan maturinn kemur. Við finnum það að æ fleiri vilja vita, ekki bara hvað þeir eru að borða, heldur hvað maturinn þeirra borðaði,“ segir Björgvin Þór Harðarson, svínabóndi í Laxárdal II.