Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fór í aðgerð á vinstra auga - kom blindur út á hægra

Mynd: RÚV - Þór Ægiss., Kristinn ? / RÚV
Karlmaður, sem gekkst undir leysiaðgerð á vinstra auga en kom blindur út á því hægra, er ósáttur við þá skoðun Landlæknis að mistök hafi ekki verið gerð. Upplýsingagjöf augnlæknis til mannsins er talin ámælisverð. Dómkvaddir matsmenn telja víst að mjög sjaldgæfur fylgikvilli aðgerðar hafi valdið sjóntapinu. 

Sagði að það hefði engin áhrif á sjónina

Steinar Marberg Egilsson er menntaður rafvirki og hafði starfað við fagið og garðaþjónustu. Hann hafði verið í augnmeðferð á vinstra auga á Landspítala og var svo sendur í lokameðferð vegna bjúgs á því auga til augnlæknis á stofu 15. mars 2016. Þar setti læknirinn leysi í vinstra augað og ákveður að setja svo leysigeisla í hægra augað líka:  

„Og ég nefni það við hana að það sé ekkert að hægra auganu og hún segir bara miðað við að ég sé komin á þann aldur og það kosti mig ekki neitt og það hafi engin áhrif á sjónina,“ segir Steinar, „og maður þarf að taka svona splitt ákvörðun bara með öll tækin í andlitinu. Og ég náttúrulega treysti lækninum og hún setur leysi í hægra augað á mér. Þannig að ég fer inn með sjón á báðum augum og kem blindur út á hægra auga sem var alveg í lagi.“

Bráðaaðgerðin gerð fjórum mánuðum síðar

Hálfum mánuði síðar leitar hann enn blindur á hægra auga á bráðamóttöku Landspítalans. Þar segja læknar að gera þurfi bráðaaðgerð á hægra auga og að kalla þurfi augnlækni að utan: 

„Og að ég fari í þessa akút aðgerð og þurfi bara að bíða, þeir þurfi bara að hafa samband við hann og fá hann heim, hvenær hann komist. Og ég bíð bara og bíð, hvað í fjóra mánuði.“

Þegar hann hringir á spítalann kannaðist enginn við mál hans á Landspítala en þá var allt sett í gang.
Eftir bráðaðgerðina fjórum mánuðum eftir þá fyrri er Steinar með svokallaða turnsjón á hægra auga, nánast enga jaðarsjón og er sjónin 0,7 með besta gleri.

Ekki mistök en ámælisverður skortur á upplýsingagjöf

Honum var ráðlagt að kvarta til landlæknis:

„Það væri nú ekki sniðugt að fara inn í athugun á vinstra auga og koma blindur út á hægra.“

Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga er skylt að veita sjúklingi upplýsingar um fyrirhugaða meðferð og áhættu. 

Niðurstaða landlæknis tveimur árum eftir aðgerðina er sú að nokkuð hafi vantað upp á að læknirinn upplýsti Steinar um augnástand hans og þörf fyrir meðferð. Þessi skortur á upplýsingagjöf sé ámælisverður þó ekki svo að talið hafi verið að en augnlæknirinn hafi gert mistök með leysiaðgerðinni eða sýnt vanrækslu. 

Steinari þótti niðurstaðan út í hött því í álitinu virtist einblínt á það að hann væri með sykursýki. 

„Að þetta væri út af sykursýkinni. Að ég hefði bara misst sjónina akkúrat inni hjá augnlækninum þarna út af sykursýki og öllu var reynt að koma yfir á það.“

Algerlega úr lausu lofti gripið að sykursýki hafi verið ástæðan

Eftir að úrskurðarnefnd vátryggingamála hafnaði því að Steinar ætti rétt til bóta úr sjúkratryggingu augnlæknisins óskaði hann eftir gjafsókn og í kjölfarið dómkvaddi héraðsdómur lögmann og augnlækni til að meta hvort tryggingafélag læknisins ætti að greiða Steinari bætur. 

Matsgerðin var tilbúin réttum fimm árum eftir aðgerðina. Hún er 23 blaðsíður og þar er farið yfir sjúkrasögu Steinars meðal annars það að hann er með sykursýki. 

Í matsgerðinni kemur fram að sykursýki Steinars olli þó ekki sjónskerðingunni heldur mjög sjaldgæfur fylgikvilli aðgerðarinnar. Og matsmennirnir kveða fast að orði: 

„Sú skýring að undirliggjandi sjúkdómur hafi valdið þessu er algjörlega úr lausu lofti gripin, þar sem versnun sjónarinnar varð því sem næst samstundis eftir laseraðgerð.“

Heldur áfram með málið

Þú verður glaður að matið er á annan veg að hluta heldur en álit landlæknis?

„Já, ég náttúrulega bara innst inni í mér vissi ég að þetta var ekki rétt.“

Nú í lok ágúst hafnaði Embætti landlæknis ósk Steinars um að taka málið upp á ný. Lögfræðingar Steinars ætla að kæra málsmeðferðina til ráðherra. Þá er búið að kvarta til Landspítalans yfir seinaganginum með bráðaaðgerðina. 

„Alla vega ég ætla ekki að stoppa,“ segir Steinar.