Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ASÍ varar við sölu á Mílu

20.10.2021 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Alþýðusamband Ísland varar við sölu á Mílu, og þar með grunnneti símkerfisins úr landi. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ. Þar er þess krafist að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja almannahagsmuni og bæta fyrir þau mistök sem gerð hafi verið við sölu símkerfisins við einkavæðingu Símans.

Stjórnvöldum beri að standa vörð um grunninnviði og tryggja að þeir séu í samfélagslegri eigu. Síminn er langt kominn með sölu á dótturfyrirtækinu Mílu sem rekur ljósleiðarakerfi um allt land og á í viðræðum við stórt alþjóðlegt fyrirtæki um söluna. Forsætisráðherra sagði í fréttum RÚV í fyrradag að málið hefði verið tekið upp á vettvangi þjóðaröryggisráðs, en þingmenn stjórnarandstöðu hafa síðan undrast að það hafi ekki verið gert fyrr.

Stjórnarandstaðan ósátt 

Stjórnarandstaðan krefst þess að ítarlegri umræða verði um fyrirhugaða sölu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur óskað eftir að forsætisráðherra hitti formenn allra flokka til að ræða málið. Hún furðar sig á að ríkisstjórnin og þjóðaröryggisráð hafi ekki verið búin að bregðast fyrr við fyrirhugaðri sölu á fyrirtækinu. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tók undir með Þorgerði ásamt fleirum úr stjórnarandstöðunni. „Þetta varðar þjóðaröryggi þannig að það er ástæða til þess að ræða þetta mun betur en virðist vera í kortunum núna. Þetta er okkar grunnnet. Allt saman heila klabbið fer í gegnum Mílu. Það verður að hugsa fyrir því vel og vandlega ef það á að selja það frá okkur og láta einhvern annan taka yfir og það erlendis,“ sagði Inga í fréttum í gær.

Áhættan hjá almenningi en ekki fjárfestum

Í ályktun miðstjórnar ASÍ segir að fjármagnseigendur um allan heim leitist við að komast yfir samfélagslega innviði þar sem innkoma sé stöðug og draga megi út fjármagn með einföldum hætti. „Þar geta skapast óeðlilegir hvatar til að draga úr fjárfestingum og viðhaldi, selja eignir og skilja eftir lítið annað en skel utan um starfsemina. Slík hætta er raunveruleg og í tilviki Mílu er ljóst að íslenskt samfélag sæti uppi með kostnaðinn, auk þess sem röskun á starfsemi Mílu gæti hamlað eðlilegu gangverki samfélagsins. Áhættan liggur því hjá íslenska ríkinu og þar með íslenskum almenningi, ekki hjá erlendum fjárfestum. Gróði eigenda Símans getur orðið skammgóður vermir, en þar á meðal eru nokkrir lífeyrissjóðir sem samanlagt fara með meirahlutaeign og bera skyldur gagnvart samfélaginu öllu,“ segir í ályktun miðstjórnar ASÍ.