Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Afborganir óverðtryggðra húsnæðislána hækka

20.10.2021 - 22:02
Mynd: RÚV / RÚV
Stýrivextir Seðlabankans verða rúm fjögur prósent síðla árs 2023 gangi spá hagfræðideildar Landsbankans eftir. Verði það raunin má búast við að mánaðargreiðsla af 30 milljóna króna láni verði 36 þúsund krónum hærri en hún er nú.

Ný þjóðhags- og verðbólguspá fyrir árin 2021-2024 sem Landsbankinn gaf út í morgun gerir ráð fyrir kröftugum hagvexti á þessu ári og því næsta. Ferðaþjónustan sé vöknuð úr dvala, horfur séu á góðri loðnuvertíð og atvinnuleysi haldi áfram að minnka. Þessu samhliða séu áskoranir í ríkisfjármálum og áfram muni verðbólga, sem enn eigi eftir að hækka, knýja hækkun stýrivaxta.

„Verði í kringum 5% í lok ársins en fari að lækka á næsta ári. En þetta kalli á á fleiri vaxtahækkanir og við gerum ráð fyrir að á næsta fundi nefndarinnar í nóvember þá muni vextir hækka um 25 punkta í viðbót og svo á næstu sex fundum nefndarinnar verði frekari hækkanir og við gætum séð vextina hækka töluvert áður en verðbólgan verði komin aftur í jafnvægi, í markmið um mitt ár 2023,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.

Gangi það eftir verða stýrivextir 4,25 prósent sem þó er lægra en þeir voru í byrjun árs 2019 þegar þeir voru 4,5 prósent. Þetta mun hafa áhrif á óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum. Meðallánsupphæð nýrra lána hjá Landsbankanum er 30 milljónir og meðallánstími er 35 ár. Fréttastofa fékk sérfræðing til að reikna út möguleg dæmi um hvaða áhrif áætlaðar stýrivaxtahækkanir geta haft á slíkt lán. Í dæminu er tekið er mið af þróun íbúðalánavaxta í samhengi við breytingar á stýrivöxtum 2018-2019.

Skoðum breytingu á 30 milljóna króna húsnæðisláni sem nú ber mánaðarafborgun upp á 130 þúsund krónur. Verði stýrivextir 3,5 prósent má gera ráð fyrir að mánaðarlegar afborganir fari í 157 þúsund og verði 27 þúsund krónum hærri en nú. Sé hins vegar miðað við 4,25 prósenta stýrivexti verður mánaðarleg afborgun af sama láni 166 þúsund krónur eða nærri 36 þúsund krónum hærri en í dag. 

Landsbankinn spáir þó einnig að laun muni hækka. Sé miðað við meðallaun á Íslandi árið 2020 sem voru 670 þúsund, er gert ráð fyrir að þau hækki umtalsvert á milli ára - nái að verða 722 þúsund í ár og verði komin í 856 þúsund krónur árið 2024.

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir