
Verðhækkanir, vöruskortur og bensín í hæstu hæðum
Fjölmargir í kauphugleiðingum undanfarið kannast við að þurfa að bíða lengi eftir ýmsum vörum úr pöntun.
Hökt í aðfangakeðjunni afleiðing covid
Covid faraldurinn er víðast á undanhaldi en ekki vöruskorturinn.
„Við erum að upplifa eitthvað alveg nýtt svona í eftirmála þessarar covid kreppu og það virðist vera að þetta sé aðfangakeðjan í heild sinni sem er að hökta. Og það birtist með þessum hætti að það eru mjög miklar verðsveiflur frá viku til viku og jafnvel mánuði til mánaðar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson frkvstj Samtaka atvinnulífsins.
Skortur á eftir að valda verðhækkunum
Hann segir of snemmt að segja hvernig þetta muni þróast:
„En það er mjög líklegt að skorturinn til skamms tíma muni valda verðhækkunum alla vega á einhverjum vöruflokkum.“
Hrávöruverð í heiminum hefur hækkað og verð á áli í hæstu hæðum - sem er hagkvæmt fyrir Ísland, segir Halldór Benjamín.
Ef hrávöruverð áfram hátt hækkar verðbólga í heiminum
Ástæða hás álverðs er meðal annars minna framboð, enda hafa Kínverjar lokað álverum, segir Gústaf Steingrímsson hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans:
„Ef við tökum álið sem dæmi þá hefur það ekki verið jafn hátt síðan 2008, í þrettán ár. Fyrir hinar ýmsu hrávörur að þá hefur verðið ekki verið jafn hátt í langan tíma. En ef það verður áfram svona hátt að þá munum við væntanlega sjá hærri verðbólgu í heiminum.“
Spáir meiri hækkun bensínverðs
Ekki þarf að leita eins langt aftur í tímann og í álinu til að finna eins hátt olíuverð og í dag.
„Bensínverð hefur hækkað um, í september var það búið að hækka um 15% á tólf mánaða grundvelli. Og við erum að spá því að tólf mánaða hækkunin fari í 24% núna í nóvermber og það er bara vegna hækkandi olíuverðs.“