Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi

Mynd: RÚV / RÚV

Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi

19.10.2021 - 09:41

Höfundar

Fjölmiðlamaðurinn Þorkell Máni Pétursson var að gefa út sína fyrstu bók sem hann segir vera fyrir karlmenn á aldrinum 15-52 ára. Bókin heitir Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi og er sjálfshjálparbók fyrir karlmenn sem vita að sjálfshjálparbækur eru bara fyrir aumingja.

Undanfarin 14 ár hefur Máni verið annar umsjónarmanna útvarpsþáttarins Harmageddons á X977 en síðasti þátturinn fór í loftið föstudaginn 24. september. Máni segir endalok Harmageddons hafa átt sér langan aðdraganda. „Hann verður ekki talinn í mánuðum heldur árum. Við vorum orðnir vel þreyttir á þessu. Frosti var farinn í sjónvarpið og ég var farinn að gera aðra hluti. Það er mjög skrítin staða að vera í vinnu þar sem þú ert að hafa skoðanir á öllu og þú veist að þetta var nokkuð góður útvarpsþáttur þegar einhver á samfélagsmiðlum kallar þig hálfvita. Það er mælikvarðinn. Það er líka lýjandi að hafa skoðanir á öllum hlutum. Þetta var að einhverju leyti hætt að næra mann, hætt að næra lífið. Okkur fannst það frábær hugmynd að hætta þessu,” segir Máni sem þakkar fyrir að hafa getað hætt á eigin forsendum. „Það er ótrúlega gott að hætta þessu svona á eigin forsendum. Það er nú ekki oft í fjölmiðlabransanum að maður fái að hætta á eigin forsendum,” segir Máni.

Þrátt fyrir að vera ekki lengur í útvarpinu er nóg að gera hjá Mána. Hann er umboðsmaður margra vinsælustu söngvara landsins og má þar meðal annars nefna Friðrik Dór, Jón Jónsson og GDRN. En það var einmitt í COVID-19-faraldrinum sem að hann hætti nánast alveg að bóka sitt fólk á tónleika og þá gafst tími til að skrifa loksins bókina sem hann hafði gengið með í huganum síðustu tíu árin. „Ég var aðallega að taka við tölvupóstum sem í stóð: „Við frestum þessari árshátíð um 12 mánuði í viðbót.” Það var lítið annað að gera,” segir Máni sem skráði sig í nám í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. „Þá fékk ég tækifæri til að setjast niður og skrifa þessa bók. Ég var búinn að skrifa hana oft áður, ég held að ég hafi skrifað hana þrisvar,” segir Máni.

Bókin byggir að miklu leyti á samtölum sem Máni hefur átt við aðra karlmenn síðustu árin. „Ég er búinn að vera tólf spora-maður í 25 ár. Síðan fór ég og lærði markþjálfun líka þannig að ég er búinn að vera að markþjálfa unga og eldri menn, aðallega bara menn. Þetta kemur úr öllum svoleiðis samtölum, hvernig á maður að vera karlmaður?,” segir Máni.

Hann segir að það sé mikið rætt um karlmennskuna núna. Hún er sögð eitruð, hörð, mjúk og í raun hvernig sem er. Máni segir bókina vera eins konar leiðarvísi að því hvernig hann og félagar hans sjái fyrir þessa karlmennsku og hvernig sé best að vera karlmaður á 21. öldinni. Hann segist vera ósammála því að karlmenn séu málaðir upp sem tilfinningalausir einstaklingar sem geti ekki rætt tilfinningar sínar. „Það er ekki mín reynsla. Mín reynsla er sú að það sem telur mest er að eiga góða vini og eiga einhvern sem maður treystir. Ég hljóp á fullt af veggjum, frá því að ég var ungur drengur. Ég var mjög erfiður í skapinu og leiðinlegur í skóla. Búinn að prófa allar íþróttir og prófa allt svo sem. Veggirnir sem maður hleypur á og erfiðleikarnir sem maður lendir í. Hvernig á maður að fara í gegnum þetta? Er þetta svona erfitt? Þessi bók fjallar um það,” segir Máni.

Máni á sjálfur tvo unga drengi og hafði þá meðal annars í huga þegar hann var að ákveða hvernig hann skyldi skrifa bókina. „Karlmenn, þeim finnst ekki skemmtilegt að lesa eitthvað sem er mjög ítarlegt. Kynslóðin sem er að koma upp núna, hún er oft sökuð um að nenna ekki að lesa. En hún nennir bara ekki að lesa það sem er leiðinlegt, hún skilur ekki af hverju allt þurfi að vera í svona löngu máli. Þess vegna er þetta eins og uppflettirit. Hvert atriði tekur í raun bara eina blaðsíðu. Hvort sem það er verið að ræða heiðarleika, ábyrgð, tilfinningar eða hvað sem er. Ég veit að ef þetta hefði verið ítarleg bók hjá mér þá nennir enginn að nenna að lesa þetta,” segir Máni. 

Eftir árin í útvarpinu eru margir sem telja sig þekkja nokkuð vel hvernig Máni er og hvernig bækur hann myndi skrifa. Hann segir samt að bókin ætti að koma mörgum á óvart. „Þetta er ekki eins mikill Máni á X-inu eins og fólk heldur. En hann kemur þarna fyrir líka. Þar sem ég er að tala mjög kjarnyrt um ákveðna hluti, hvernig þeir eiga að vera og svona,” segir Máni.

Bókin kemur í verslanir í nóvember en hægt er að tryggja sér eintak í forsölu á vef Kroniku bókaútgáfu.