Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Taldi sér skylt samkvæmt lögum að aflétta aðgerðum

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir í minnisblaði sem hún kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að þótt aflétting allra takmarkana í sumar hafi leitt til stærstu bylgju kórónuveirufaraldursins væri henni skylt samkvæmt sóttvarnalögum að leitast í sífellu við að aflétta gildandi sóttvarnaráðstöfunum í samræmi við þróun farladursins.

Til stendur að aflétta öllum samkomutakmörkunum hér á landi í tveimur skrefum á næstu fjórum vikum.

Fyrra skrefið verður tekið á miðnætti þegar grímuskyldu verður aflétt og tvö þúsund mega koma saman. Gangi allt að óskum verður öllum takmörkunum aflétt þann 18. nóvember.

Svandís mætti á fund ríkisstjórnarinnar í morgun með minnisblað sóttvarnalæknis þar sem hann teiknaði upp þrjár mismunandi leiðir og kosti og galla við hverja leið. Svandís var líka með sitt eigið minnisblað þar sem hún rökstuddi ákvörðun sína.  

Í minnisblaðinu bendir hún meðal annars á að sú leið sem hafi verið farin í fjórðu bylgju faraldursins hafi ekki átt að standa lengur en í takmarkaðan tíma „nema alvarlegar breytingar yrðu á eðli faraldursins.“ Hún segir að hægfara afléttingar eftir að aðgerðir voru hertar hafi ekki enn valdið auknum innlögnum á spítala og stór hluti smitanna sé meðal barna sem þurfi miklu síður á innlögn að halda vegna COVID-19.

Svandís nefnir að í sóttvarnalögum sé kveðið á um að við beitingu takmarkana og afléttingu þeirra skuli gæta meðalhófs og jafnræðis.  Til að aðgerðir nái þeim árangri sem að sé stefnt og gangi ekki lengra en þörf sé á „verður að gera þá kröfu að ávallt sé byggt á nýjustu þekkingu á þeim smitsjúkdómum sem við er að fást hverju sinni.“ 

Hún telur því að ráðherra og sóttvarnayfirvöldum sé lögum skylt að „leitast í sífellu við að aflétta sóttvarnaráðstöfunum í samræmi við þróun faraldursins og eftir atvikum breyttu hættumati eftir því sem ónæmi eflist í samfélaginu.“ Þetta eigi við þrátt fyrir að aflétting allra takmarkana í sumar hafi leitt til fjórðu bylgjunnar.

Þórólfur segir í minnisblaði sínu að ljóst sé að bólusetning gegn COVID-19 sé áhrifarík til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi. Síðustu vikur hafi 42 prósent þeirra sem greinst hafi með kórónuveiruna verið bólusettir, 57 óbólusettir og 1 prósent hálfbólusettir. Þá vekur athygli að í minnisblaðinu kemur fram að ekkert fullbólusett barn á aldrinum 12 til 15 ára hefur greinst með COVID-19. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV