Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ómögulegt að segja hvenær vinna nefndarinnar klárast

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa fundaði í Borgarnesi í dag. Fjöldi ónotaðra atkvæðaseðla stemmir við kjörgögn, samkvæmt talningu á seðlunum sem fram fór í morgun.

Ónotaðir atkvæðaseðlar úr Norðvesturkjördæmi voru taldir af starfsmanni yfirkjörstjórnar og starfsfólki sýslumannsembættis að þremur nefndarmönnum viðstöddum. Talning leiddi í ljós að fjöldi ónotaðra seðla stemmdi við kjörgögn. 

„Þannig að þær áhyggjur sem einhverjir höfðu af því að það væri misræmi í tölum á ekki við rök að styðjast,“ segir Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar. 

En það eru nokkuð mikilvægar upplýsingar. 

„Já, já. þetta eru allt mikilvægar upplýsingar og við erum auðvitað að reyna að útiloka alls konar möguleika til að reyna að fá heildstæða mynd af því sem raunverulega gerðist.“ 

Skiptir máli að eiga milliliðalaust samtal

Nefndin skoðaði þá aðstæður á Hótel Borgarnesi þar sem atkvæðin voru talin og geymd á milli talninga. Hún ræddi sömuleiðis við starfsfólks hótelsins og hluta yfirkjörstjórnar. Þar á meðal Inga Tryggvason, formann nefndarinnar. Allt þetta fólk hafði þegar verið yfirheyrt af lögreglu.

„Það er auðvitað þannig að lögreglan á Vesturlandi hefur verið með til rannsóknar kærumál út af tilteknum atriðum sem varðar kosningarnar og við höfum eins og kunnugt er fengið aðgang að ákveðnum hluta þeirra gagna en það skiptir líka máli að við fáum að eiga milliliðalaust samtal við það fólk sem hér kom og gat þá gefið okkur sína mynd af því sem hér gerðist.“ 

Tólf hafa nú kært niðurstöður kosninganna - fimm þeirra eru frambjóðendur sem misstu sæti sitt við endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.

Ómögulegt að segja hvenær vinnan klárast

Birgir segir að nefndin muni halda áfram að safna upplýsingum næstu daga.

„Síðan tekur við auðvitað mat á niðurstöðum þeirrar athugunar.“ 

Sjáið þið fyrir endann á þessu?

„Okkur miðar ágætlega.“ 

En þú veist ekki hvenær.

„Nei, við munum funda daglega núna það sem eftir er þessarar viku og þá er ljóst að einhver vinna mun bíða fram yfir helgi, en hve margir dagar það er ómögulegt að segja.“