Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Metfjöldi covid-smita á Nýja-Sjálandi

Mynd með færslu
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands Mynd:
Metfjöldi COVID-19 smita greindist á Nýja-Sjálandi í gær. Heilbrigðisyfirvöld tilkynntu í morgun að 94 hefðu greinst með COVID-19 síðasta sólarhringinn. Fyrra met hljóðaði upp á 89 smit á einum degi og er síðan í apríl á síðasta ári. Tilkoma delta-afbrigðisins veldur þessu, en hröð útbreiðsla þess varð til þess að stjórnvöld á Nýja-Sjálandi sáu sér ekki annað fært en að hverfa frá fyrri stefnu sinni um „Núll-covid.“

 

Hún fólst í því að halda landinu nokkurn veginn algjörlega einangruðu frá umheiminum til að koma í veg fyrir að smit bærist þangað og bregðast hart við með ströngum aðgerðum þá sjaldan að hún skaut upp kollinum. Í staðinn gátu Nýsjálendingar lifað lífinu nánast eins og farsóttin væri ekki til þess í milli.

Fá smit á flestra mælikvarða en fjölgar stöðugt

Þótt 94 sólarhringssmit í fimm milljóna þjóð þyki óvíða eitthvað til að kippa sér upp hefur smitum fjölgað hægt en örugglega allt frá því að delta-afbrigðið greindist fyrst á eyríkinu um miðjan ágúst.

Er nú svo komið að heilbrigðisyfirvöld telja útilokað að berja veiruna niður með ströngum lokunum, útgöngubanni og öðrum þeim aðferðum sem beitt hefur verið hingað til og meiri áhersla lögð á bólusetningu landsmanna, sem fór hægt af stað en hefur gengið betur síðustu vikur.

Jacinda Ardern forsætisráðherra mun kynna endurskoðaða stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi farsóttina á föstudaginn kemur. Samkvæmt frétt AFP er reiknað með að þar verði boðaðar ýmsar tilslakanir í takt við hækkandi bólusetningarhlutfall meðal landsmanna.