Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kona dæmd fyrir kynferðisbrot gagnvart samstarfskonu

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Kona hlaut nýverið tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir kynferðisbrot gagnvart samstarfskonu á hótelherbergi í Reykjavík þar sem þær voru saman í vinnuferð. Héraðsdómur Reykjavíkur gerði konunni jafnframt að greiða 450 þúsund krónur í miskabætur. Konurnar voru saman í vinnuferð í Reykjavík ásamt fimm öðrum konum.

Brotið átti sér stað aðfaranótt þriðjudagsins 9. apríl 2019 í herbergi á Fosshótel Lind. Konunni var gert að sök hafa áreitt samstarfskonu sína kynferðislega með því að taka um hendi hennar og láta hana strjúka nakinn líkama geranda þar sem hún lá við hlið hennar. Þegar konan kippti að sér hendinni strauk gerandi hana utanklæða frá brjóstum og niður á læri. Konan sem fyrir þessu varð  vafði þá sæng þétt utan um sig og færði sig út á brún rúmsins. Í dómnum kemur fram að hin konan hafi þá fært sig þétt upp að henni og strokið henni yfir sængina.  

Rifust fyrr um nóttina

Í dómnum kemur fram að konurnar voru ásamt fimm samstarfskonum sínum í vinnuferð í Reykjavík og gistu á hóteli. Þær hafi farið á veitingastað á mánudagskvöldinu þar sem áfengi hafi verið haft um hönd. Gerandi og brotaþoli hafi ásamt tveimur samstarfskonum sínum haldið gleðskapnum áfram saman inni á hótelherbergi. Þar rifust gerandi og brotaþoli um vinnutengd mál. Síðan hafi konurnar farið að sofa hver í sínu herbergi. 

Síðar um nóttina kom gerandinn inn á herbergi brotaþola. Þær ræddu saman en lögðust síðan báðar til hvílu í herberginu, hlið við hlið, í tveimur samliggjandi rúmum, að því er segir í dómnum. Brotaþoli vaknaði síðar um nóttina við áreitni geranda.

Framburður brotaþola skýr

Konan sem sökuð er um kynferðisbrotin neitaði sök fyrir dómi. Í dómnum kemur fram að hún hafi verið í mjög annarlegu ástandi vegna áfengisvímu umrædda nótt og því sé varhugavert að byggja á framburði hennar um atburði næturinnar. Framburður brotaþola hafi aftur á móti verið einlægur, skýr og hún hafi í öllum meginatriðum verið samkvæm sjálfri sér í frásögn. 

Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að konan hafi brotið gegn hinni konunni. Brotið teljist kynferðisleg áreitni. Þannig brot séu til þess fallin að valda andlegu tjóni og framburður sálfræðinga renni stoðum undir að það sé raun staðan hjá brotaþola. 

Konunni var jafnframt gert að greiða brotaþola 450.000 króna miskabætur. Dómurinn var kveðinn upp á fimmtudag.

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV