Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Innflytjendur 15,5% mannfjöldans á Íslandi

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Innflytjendum heldur áfram að fjölga á Íslandi en þeir voru fimmtán og hálft prósent mannfjöldans um síðustu áramót. Það hlutfall fer í 17,1% sé önnur kynslóð innflytjenda talin með. Pólverjar eru líkt og undanfarin ár fjölmennastir í hópi þeirra sem hingað hafa flust.

Nýjar tölur Hagstofu Íslands sýna að innflytjendum heldur áfram að fjölga í landinu bæði af fyrstu og annarri kynslóð.

Um síðustu áramót bjuggu 57.126 innflytjendur á Íslandi eða15,5% mannfjöldans að því er fram kemur í tilkynningu frá Hagstofu Íslands. Það er lítilleg fjölgun milli ára.

Innflytjendum heldur því áfram að fjölga en árið 2012 voru þeir 8% íbúa landsins. Samanlagt eru hefur hlutfall fyrstu og annarar kynslóðar innflytjenda aldrei verið hærra eða 17,1% íbúa.

Fólki með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum fjölgaði lítillega milli ára og telst nú 7,1%. Ríflega 20 þúsund Pólverjar bjuggu á á Íslandi um áramót og eru þeir langfjölmennasti hópurinn.

Litáar og Filippseyingar koma næstir en eru þó mun færri. Hæst hlutfall innflytjenda býr á Suðurnesjum eða tæp 28 prósent íbúanna en lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra, níu og hálft prósent.

Í fyrra fengu 395 íslenskan ríkisborgararétt sem er nokkur fækkun frá 2019 þegar fjöldinn var 437. Undanfarin 30 ár hafa fleiri konur en karlar fengið ríkisborgararétt ár hvert.

Innflytjandi er fæddur erlendis og foreldrar, afar og ömmur hans einnig en innflytjandi af annarri kynslóð er fæddur á Íslandi en á foreldra sem teljast vera innflytjendur.

Sé annað foreldri erlent telst fólk hafa erlendan bakgrunn og eins það fólk sem fætt er í útlöndum en á foreldra fædda hér á landi.