Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hljóp sem nemur vegalengdinni frá Íslandi til Flórída

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Hljóp sem nemur vegalengdinni frá Íslandi til Flórída

19.10.2021 - 20:09
Andrea Marcato, 39 ára Ítali, tryggði sér í gær sigur í lengsta hlaupi heims. Það tók hann hann 42 daga, 17 klukkutíma, 38 mínútur og 38 sekúndur að klára vegalengdina, enda er hlaupið 3100 mílur eða 4989 kílómetrar.

Til að setja vegalengdina í samanburð við flugleið sem margir Íslendingar þekkja má geta þess að flugleiðin milli Keflavíkurflugvallar og alþjóðaflugvallarins í Orlandó í Flórída, Bandaríkjunum, er 5.680 km löng.

Þetta var í 25. sinn sem hlaupið var haldið og fór það að þessu sinni fram í New York í Bandaríkjunum. Sjö hlauparar tóku þátt í ár og lögðu allir af stað þann 5. september. Keppendur hafa 52 daga til að klára hlaupið, sem svarar til 118 maraþonhlaupa, og þurfa þeir því að meðaltali að hlaupa 95,9 kílómetra á dag. 

Ekki eru allir búnir með hlaupið en Andrea Marcato tókst að hlaupa um 116 kílómetra að meðaltali daglega og kom þannig í mark tæpum 43 dögum eftir að hann lagði af stað. Þetta er annað árið í röð sem sá ítalski tryggir sér sigurinn í hlaupinu.