Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Grímuskyldu aflétt og tvö þúsund mega koma saman

19.10.2021 - 09:51
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Öllum sóttvarnaaðgerðum verður aflétt í tveimur skrefum á næstu fjórum vikum. Fyrra skrefið verður tekið á miðnætti þegar grímuskyldu verður aflétt, tvö þúsund mega koma saman og opnunartími skemmtistaða lengist um klukkutíma. Eftir fjórar vikur stendur til að aflétta öllum sóttvarnaaðgerðum ef allt gengur að óskum. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, upplýsti um þetta eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun.

Svandís sagði við fréttamenn þegar hún kom út af fundi ríkisstjórnarinnar að staðan á Landspítalanum hefði ekki afgerandi áhrif.  „Við þurfum bara að læra af reynslunni og við höfum verið að aflétta í skrefum í faraldrinum. Nema í júli þegar við tökum þetta stóra skref og erum enn að bíta úr nálinni með það. Þetta er nánast full aflétting og mjög lítið sem stendur út af .“

Svandís sagði að þetta væri í takt við ráðleggingar sóttvarnalæknis, hann hafi í minnisblaði sínu talað um þúsund til tvö þúsund manna samkomutakmarkanir. Svandís var spurð hvort full sátt hefði verið um þessa leið í ríkisstjórninni. „Það endar alltaf með því,“ svaraði Svandís, það væri ekkert leyndarmál að deildar meiningar væru innan ríkisstjórnarinnar og hefðu verið það lengi.

Svandís sagði ríkisstjórnina vera meðvitaða um að COVID væri ekki búið, það þyrfti ekki annað en að horfa til Bretlands í þeim efnum. En þau teldu að hægt væri að stíga þetta skref á þessum tímapunkti.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV