Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gosið á Kanaríeyjum mánaðargamalt

19.10.2021 - 15:56
Erlent · eldgos · kanaríeyjar · La Palma · Spánn · Evrópa
People clean up the ash off a house from the volcano in Las Manchas on the Canary island of La Palma, Spain on Thursday Oct. 14, 2021. Hundreds of people in Spain's Canary Islands are fearing for their homes and property after a new lava stream from an erupting volcano threatened to engulf another neighborhood on the island of La Palma. (AP Photo/Saul Santos)
 Mynd: AP
Einn mánuður er síðan eldgos hófst á Kanaríeyjunni La Palma. Það hefur valdið miklu tjóni og þúsundir eyjarskeggja hafa orðið að flýja að heiman. Jarðvísindamenn segja ógerlegt að spá fyrir um endalok þess. 

Gosið hófst í eldfjallinu Cumbre Vieja 19. september og hefur staðið með litlum hléum síðan. Ekkert manntjón hefur orðið af völdum þess, en hraunflaumurinn hefur eyðilagt 1.956 byggingar, þar á meðal fjölda íbúðarhúsa. 61 bygging til viðbótar er í hættu um þessar mundir.

Um sjö þúsund eyjarskeggjar hafa til þessa orðið að forða sér að heiman. Alls búa um 85 þúsund á La Palma. Þrátt fyrir gosið reyna eyjarskeggjar að halda daglegu lífi í föstum skorðum.Á fimmta þúsund skólanemar og sex hundruð kennarar úr Aridane-dal sneru til dæmis til baka í skólann í gær, í fyrsta sinn í tæpan mánuð. 

Hraunið þekur orðið 763,3 hektara lands, þar af 229 hektara ræktarlands þar sem meðal annars eru ræktaðir bananar, avokadó og vínber til víngerðar.

Jarðvísindamenn segja ómögulegt að spá fyrir um goslok. Fjallið spýr um þessar mundir út um það bil tíu þúsund tonnum af brennisteinsdíoxíði á sólarhring. Spænskir fjölmiðlar hafa eftir David Calvo, hjá Involcan eldfjallamiðstöðinni, að þegar það verði komið niður í fjögur hundruð tonn eða minna megi fara að gera ráð fyrir að gosinu sé að ljúka.