Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Ég er orðinn eins og hrópandinn í eyðimörkinni“

19.10.2021 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir erfitt að segja til um hver áhrif breyttra sóttvarnareglna verða. Til skoðunar er að slaka á reglum um sóttkví á næstunni.

Öllum sóttvarnaaðgerðum verður aflétt í tveimur skrefum á næstu fjórum vikum. Fyrra skrefið verður tekið á miðnætti þegar grímuskyldu verður aflétt, tvö þúsund mega koma saman og opnunartími skemmtistaða lengist um klukkutíma.

„Þetta er bara eitt af því sem ég hafði lagt til í mínu minnisblaði þannig að það er svo sem ekkert mikið meira um það að segja í sjálfu sér,“ segir Þórólfur. Hann segir erfitt að segja til um hver áhrif breytinganna verða. 

„Við erum náttúrulega að sjá vísbendingar núna um aukningu í fjölda tilfella. Hvort það muni skila sér í aukningu á spítalainnlögnum er ekki gott að segja til um,“ segir hann og bætir við að í raun hafi ekki verið farið mikið eftir þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi undanfarið.

Áttatíu manns greindust með kórónuveiruna í gær, þar af var tæplega helmingur utan sóttkvíar. Þórólfur segir þann fjölda vera til marks um að baráttan við farsóttina sé ekki búin.

„Ég er búinn að segja það allan tímann og reyna að halda því á lofti. Ég er orðinn eins og hrópandinn í eyðimörkinni,“ segir Þórólfur. „Þetta er ekki búið og við þurfum að reyna að muna það en það hefur kannski verið vandamál að fá fólk til að vera með á þeirri línu,“ segir hann.

Samhliða afléttingu sóttvarnaaðgerða er nú unnið að endurskoðun reglna um sóttkví. „Það er hægara sagt en gert að breyta því öllu. Við erum búin að byggja upp mikla vinnu í kringum þessar leiðbeiningar sem nú þegar eru í gangi. Við léttum á því töluvert í haust þegar við bættum smitgát inn í leiðbeiningarnar. Nú erum við að fara aftur yfir þessar leiðbeiningar og sjá hvort við getum létt eitthvað enn frekar á þessu en samt sem áður reynt að hefta útbreiðslu smita eins og mögulegt er,“ segir Þórólfur.