Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dæmdur fyrir að rækta kannabis í sumarhúsi

19.10.2021 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Hákon Halldórsson - RÚV
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í síðustu viku karlmann í 90 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa um nokkurt skeið ræktað kannabisplöntur í sumarhúsi. Málið kom upp fyrir tveimur árum. Við húsleit í bústaðnum fundust 17 kannabisplöntur, 1,3 kíló af marijúana og 267 grömm af kannabislaufum.

Maðurinn mætti við þingfestingu málsins og viðurkenndi skýlaust þau brot sem honum voru gefin að sök.

Verjandi hans benti þó á þær tafir sem hefðu orðið á meðferð málsins. Rannsókn málsins hefði lokið í desember 2019 en ákæra ekki verið gefin út fyrr en í ágúst á þessu ári.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi ekki sætt refsingu áður. Horfði dómurinn til þess að verulegur dráttur hefði orðið á meðförum málsins hjá ákæruvaldinu og þótti hæfileg refsing því 90 daga skilorðsbundið fangelsi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV