Bin Salman, blóð, peningar og Newcastle United

Newcastle United er orðið langríkasta knattspyrnufélag heims, en hver er hinn raunverulegi kaupandi?
Mynd: RÚV / RÚV
Ímyndaðu þér tilfinninguna. Þú hefur haldið með einu ákveðnu fótboltaliði, alla ævi. Ár eftir ár kaupirðu ársmiða á alla heimaleikina, og ferðast hundruð kílómetra í útileiki, og jafnvel til útlanda, til að horfa á liðið þitt spila. Liðið, sem hefur allan þennan tíma, alla þína hunds- og kattartíð, ekki getað neitt. Allavega ekki unnið neina titla, þótt inn á milli eigi það góða spretti. En þrátt fyrir vonbrigðin elskarðu ekkert heitar.

Hin grútskítuga hjálparhönd

Fótbolti er vinsælasta íþrótt heims og þau sem það þekkja á eigin skinni, vita að liðið sem þú heldur með getur vel umfaðmað gervallan veruleika mannsins, frá morgni til kvölds og frá vöggu til grafar. Þessi drifkraftur tilvistarinnar, eins og fótboltalið eru í tilfelli margra, skeytir engu um rök eða skynsemi. Þvert á móti getur fótboltaliðið og eftirfylgdin við það svipt mann skynseminni, og jafnvel heilsunni líka. 

Það er nefnilega ekki svo einfalt að hætta þessu bara, ef illa gengur. Rannsóknir hafa sýnt að stuðningur við fótboltalið er ekki svo frábrugðinn því að aðhyllast trúarbrögð, eða tengjast einhverjum nánum tilfinningaböndum, svo sem fjölskyldu eða vini. Við glötum ekki trúnni svo auðveldlega, eða rjúfum tengslin við einhvern nákominn. Og rétt eins og þá, þarf ansi mikið að gerast til að gallharður stuðningsmaður láti af sinni trú og fylgispekt við forgöngumanninn í lífinu, fótboltaliðið. 

En eru hollustu okkar einhver takmörk sett? Fækkar kaþólikkum þegar enn ein fréttin af barnaníði kirkjunnar þjóna berst? Fækkar meðlimum stjórnmálaflokks þegar uppkemst að formaðurinn á eignir í skattaskjóli? Fækkar stuðningsmönnum enska knattspyrnuliðsins Newcastle United þegar þeir átta sig á því að nýr eigandi liðsins er einræðisríki sem kúgar konur, hálsheggur dæmda trúvillinga og myrðir pólitíska andstæðinga með köldu, jafnvel þótt þeir séu í öðru landi? Eða er það manninum eðlislegt, að þegar grútskítug, alveg hreint grútskítug, hjálparhöndin berst í svartasta myrkrinu, þá gripum við í hana?

epa09528724 Fans of Newcastle before the English Premier League match between Newcastle United and Tottenham Hotspur, Britain, 17 October 2021.  EPA-EFE/PETER POWELL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stuðningsmenn Newcastle fögnuðu kaupunum ákaft.

Newcastle United verður langríkasta félag heims

Þið afsakið dramatíkina, en þetta er verðug spurning á þessum síðastu og verstu tímum, fyrir fótboltaunnendur og allt hugsandi fólk, já ég geng svo langt. Það er búið að kaupa enska knattspyrnuliðið Newcastle United; tími til kominn sögðu langþreyttir og fótum troðnir stuðningsmenn liðsins sem fögnuðu tíðindunum ákaft.

Og kaupandinn er ekki af verri endanum - eða það fer auðvitað allt eftir því hvernig þú lítur á það - fjárfestingafélagið PIF. Nafnið hljómar nokkuð sakleysislega. Einhverjir arabar, sagði einhver. Þeir eru moldríkir sagði annar! En nei, kaupendur Newcastle United eru víst ekki bara einhverjir arabar. PIF, sem stundir fyrir Public Investment Fund, er alfarið í eigu stjórnvalda í Sádi-Arabíu; og stjórnarformaður þess sjálfur krónprinsinn Mohammed bin Salman. Með kaupunum varð Newcastle langríkasta knattspyrnufélag heims.

Eigið fé fjárfestingasjóðsins er yfir í kringum 320 milljarðar sterlingspunda, eða því sem nemur nemur tæplega 56 þúsund milljörðum íslenskra króna. Já þú heyrðir rétt. Þótt allur sá peningur renni kannski ekki til einvörðungu til Newcastle United, má nefna að til samanburðar hefur Manchester City, sem fyrir kaupin var langríkasta félagið á Englandi, litla 23 milljarða punda í eigið fé. Newcastle United er því orðið margfalt verðmætara en öll liðin í ensku úrvalsdeildinni; samanlagt. 

Og eigandi þess er Sadí-Arabía, eitt strangasta og siðvandasta ríki heims, stjórnað af einum umdeilasta og valdamesta manni heims, hinu 36 ára krónprins, Mohammed bin Salman. Kaupin á Newcastle verða seint talin stafa af áhuga krónprinsins á enskum fóbolta, því eins og aðdragandi þessara kaupa sýnir okkur, er þetta hápólitískt mál; mál sem staðfestir að það eru peningar sem stjórna heiminum. Og peningar - ef þú vissir það ekki - eru víst verðmæti en bæði mannréttindi og mannslíf. 

epa07920355 Russian President Vladimir Putin (L) and Saudi Arabia's Crown Prince Mohammed bin Salman (R) attend a meeting at the Saudi Royal palace in Riyadh, Saudi Arabia, 14 October 2019. Russian President Vladimir Putin pays a state visit to Saudi Arabia.  EPA-EFE/ALEXEY NIKOLSKY/SPUTNIK/KREMLIN/POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA
Mohammed bin Salman ásamt Vladimír Pútín, forseta Rússlands.

Upphafið: Milliríkjadeila Sádí-Arabíu og Katar

Til að skilja forsögu þessa flókna máls þurfum við að fara fjögur ár aftur í tímann.

Árið 2017 kastaðist í kekki milli hins vellauðuga konungsríkis Sádíu-Arabíu, stærsta ríkis Mið-Austurlanda, og smáríkisins Katar, furstadæmis sem skagar út í vestanverðan Persaflóa út frá Arabíuskaga. Katar á einungis landamæri að Sádi-Arabíu og eðli málsins samkvæmt reiðir Katar sig því töluvert á viðskipti við stóra bróður. 

Í júní 2017 brugðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu á það ráð að loka landamærunum við Katar, og - ásamt Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Bahrain og Egyptalandi - að skera á öll viðskiptatengsl við landið, sem og að banna Katörum að nýta lofthelgi þessara ríkja, og sjóleiðir. Þar hófst milliríkjadeila sem leystist ekki í tæp fjögur ár, eða fyrr en í janúar á þessu ári. 

Sádar sögðu ástæðuna fyrir þessum harkalegu aðgerðum vera þá að stjórnvöld í Katar hefðu brotið gegn sáttmála Persaflóasamstarfsráðsins, GCC sem kveður á um að aðildarríkin styðji ekki við hryðjuverkastarfsemi af neinu tagi.

Árin á undan höfðu stjórnvöld í Katar stutt stjórnmálasamtökin Bræðralag múslima og Hamas víða á MENA-svæðinu svokallaða, í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem og sveitir róttækra íslamista í Lýbíu. Í apríl 2017 höfðu Katarar svo áhrif á deilur vopnaðra fylkinga sjíta og súnníta í Írak og Sýrlandi. Þeir greiddu sjítunum háar fjárhæðir til að láta af höndum tuttugu og sex katarska gísla, og súnnítum fyrir að heimila veitingu mannúðaraðstoðar á átakasvæðinu.

En þetta var ekki ókeypis. Samkvæmt úttekt Financial Times greiddu stjórnvöld í Katar vopnuðum fylkingum Shíta í Írak yfir 700 milljónir bandaríkjadollara, og um tvöhundruð milljónir dollara til súnníta. Þessu tóku stjórnvöld í Sádí-Arabíu ekki af léttúð. Katarar höfðu þarmeð gerst brotlegir við fyrrnefnt samkomulag, að þeirra mati. 

Í maí sama ár, mánuði áður en Sádar slitu allt samband við Katara, sótti Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseti Sádi-Arabíu heim. Þar lýsti hann yfir afdráttarlausum stuðningi við Sáda í baráttu gegn Íran og Bræðralagi Múslima. Stuðningur Trumps gerði það að verkum að önnur ríki þar sem súnnítar eru í meirihluta fylgdu Sádum að máli og tóku afstöðu gegn Katar. Skilaboðin til annarra ríkja á Persaflóa voru nefnilega skýr: Ef þið kássist upp á Sádi-Arabíu, fer fyrir ykkur eins og Katar og þið sætið sams konar útskúfun. 

Viðskiptabannið við Katar hafði margháttuð áhrif á samgöngur til og frá landinu, bæði á sjó og landi. Þá féll verðbréfamarkaðurinn í katar um tæp átta prósent strax á fyrsta degi viðskiptabannsins, og svo mætti lengi telja. En það sem varðar okkur sérstaklega í þessari Heimskviðu -  og spilar stórt hlutverk í því að stjórnvöld í Sádi-Arabíu eiga nú 80% í enska knattspyrnuliðinu Newcastle - tengist fjölmiðlum. Nánar tiltekið sjónvarpsstöðinni beIN Sports.

epa09529052 Newcastle's Allan Saint-Maximin (L) in action against Tottenham's Emerson Royal (C) during the English Premier League match between Newcastle United and Tottenham Hotspur, Britain, 17 October 2021.  EPA-EFE/PETER POWELL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Úr leik Newcastle og Tottenham á sunnudag,

beIN Sports, beoutQ og enski boltinn

Katarska sjónvarpsstöðin beIN sports er langvinsælasta íþróttastöð Mið-Austurlanda, og er með sýningarréttinn í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku á langstærstu íþróttaviðburðum heims, t.d. Ólympíuleikunum, heimsmeistaramótinu í fótbolta, Meistaradeildinni, Spænsku úrvalsdeildinni, Formúlu eitt kappakstrinum, stærstu tennismótum ársins, og síðast en ekki síst, ensku úrvalsdeildinni.

Í kjölfar milliríkjadeilunnar brugðu sádi-arabísk stjórnvöld á það ráð að banna útsendingar beIN Sports í Sádi-arabíu, sem skilaði sér í töluverðu tekjutapi fyrir BeIN, sem er í eigu Al-Jazeera, sem er í eigu katarska ríkisins. Stjórnarformaður stöðvarinnar er Nasser nokkur Al-Khelafi, hann er einnig forseti og aðaleigandi franska knattspyrnuliðsins Paris St. Germain. En það er önnur saga.

En hvernig áttu Sádar þá að horfa á enska boltann? Jú, í alræðisríkjum fá stjórnvöld nú yfirleitt sínu framgengt, og geta innan sinna landamæri gert nokkurn veginn hvað sem þeim sýnist. Sádar stofnuðu sína eigin sjónvarpsstöð og efnisveitu, sem gekk undir nafninu beoutQ. En gleymum því ekki að beIN sports hafði einkaréttinn á enska boltanum. 

Hlutverk beoutQ var því nokkuð einfalt: að streyma útsendingum beIN sports - ólöglega auðvitað beint í gegnum myndlykla sína. Venjulega flokkast slíkt athæfi undir svokallaða stafræna sjónræningjastarfsemi, þegar efni er streymt ólöglega. Eðli málsins samkvæmt fordæmdu beIN sports athæfið og sökuðu nágranna sína um að normalisera sjóræningjastarfsemi. Katarar leituðu réttar síns hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO, með litlum árangri.

Í ágúst 2019 hætti beoutQ þó starfsemi og var sú skýring gefin að verið væri að vinna að uppfærslum. Efnisveitan fór aldrei aftur í loftið, en skaðinn var skeður fyrir Katar. Í júní 2019 sagði beIN upp 300 starfsmönnum og kenndi tekjutapi vegna ákvörðunar Sádi-Araba um. 

En öll él styttir upp um síðir. Í janúar á þessu ári slíðruðu Sádar og Katarar sverðin, og með hjálp erindreka frá Bandaríkjunum og Kúveit náðust sættir í milliríkjadeilunni sem hófst 2017. Og núna í október, tilkynnti beIN Media Group, móðurfélag beIN sports, að stöðin myndi hefja útsendingar á nýjan leik í Sádi-Arabíu. Og sú tímasetning, kæri hlustandi, er enginn tilviljun. 

epa09528794 Fans of Newcastle react during the English Premier League match between Newcastle United and Tottenham Hotspur, Britain, 17 October 2021.  EPA-EFE/PETER POWELL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stuðningsmenn Newcastle hafa tekið gleði sína á ný eftir mögur ár.

Borgin Newcastle og liðið sem öllu máli skiptir

Borgin Newcastle liggur við árbakka Tyneár á Norðaustur-Englandi, og er fyrrum höfuðborg Norðymbralands, sem á landamæri að Skotlandi. Í Newcastle er kalt og borgin er verkamannaborg, á 19. öld spilaði hún stórt hlutverk í iðnbyltingunni og var leiðandi í kolavinnslu og skipasmíði. Þar búa tæplega 300 þúsund manns, litlu færri en á Íslandi. 

Sómi Newcastle, sverð þess og skjöldur hefur alla tíð verið knattspyrnuliðið Newcastle United, sem var stofnað 1892 og hefur orðið Englandsmeistari fjórum sinnum, síðast árið 1927. Þá hefur liðið unnið ensku bikarkeppnina, elstu fótboltakeppni heims sex sinnum, síðast árið 1955. Sagan segir Vesturbæjarstórveldið KR, sem er stofnað 1899, spili í svarthvítum röndóttum treyjum, út af Newcastle, sem var ógnarsterkt í upphafi 20. aldar.

Eftir mögur ár á níunda áratugnum komst liðið upp í ensku úrvalsdeildina 1993, sem þá var nýstofnuð. Á fyrsta ári sínu í deildinni kom liðið rækilega á óvart og hafnaði í þriðja sæti deildarinnar undir stjórn Kevin Keagan, en liðið þótti leika leiftrandi sóknarbolta og gengu leikmenn liðsins undir gælunafninu skemmtikraftarnir.

 Árin 1996 og 1997 hafnaði liðið í öðru sæti deildarinnar og státaði af leikmönnum á borð við Les Ferdinand, David Ginola og Alan Shearer, sem var keyptur fyrir metfé í júlí 1996 og var þá einn besti framherji heims.

Árið 2007 keypti breski fjárfestirinn Mike Ashely, aðaleigandi íþróttavöruverslunarinnar SportsDirect meirihluta í Newcastle og varð stjórnarformaður félagsins. Hann tók félagið af hlutabréfamarkaði og eftir dræmt gengi árið eftir var Ashley harðlega gagnrýndur af stuðningsmönnum fyrir að leggja ekki nægilega mikinn pening inn í félagið. Meðalmennska varð einkenni Newcastle United, sem hefur tvisvar fallið um deild í tíð Mike Ashley, og skipt ört um knattspyrnustjóra. Síðustu ár hefur Ashely reynt að selja liðið, stuðningsmenn legið á bæn um að fjársterkur og metnaðarfullur kaupandi kæmi eins og stormsveipur inn í líf Newcastle-búa og færði liðið aftur upp í hæstu hæðir.  

Það glöddust því margir norður í Newcastle þegar fregnir fóru að berast af því á vormánuðum að Amanda nokkur Stavely, breskur fjárfestir sem hafði löngum reynt að kaupa Newcastle af Mike Ashley en hafði ekki orðið kápan úr því klæðinu, væri nú komin í slagtog með fjársterkum aðilum frá Mið-Austurlöndum. Hún hafði sjálf reynt að kaupa Newcastle í árslok 2017 fyrir 300 milljónir punda en Mike Ashley neitaði.

Amanda Stavely hafði kynnt áætlanir sínar fyrir Yasir al-Rumayyan, hátt settum stjórnarmanni í opinberum fjárfestingasjóði Sádi-Arabíu, PIF eða Public Investment Fund. Sjóðurinn er einn stærsti fjárfestingasjóður í heimi og eru eignir hans metnar á yfir 500 milljarða bandaríkjadollara, eða því sem nemur sextíu og fimm þúsund milljörðum íslenskra króna. Hlutverk sjóðsins er að fjárfesta fyrir hönd sádi-arabíska ríkisins. Aðal útflutningsvara Sáda, og þarmeð tekjulind, er hráolía, og sextíu og sjö prósent útflutningstekna landsins eru tengdar olíu. Landið er stærsti útflutningsaðili hráolíu í heiminum og næst stærstu olíubirgðir heims eru í Sádi-Arabíu. 

epa09529024 Newcastle United's Saudi Arabian new chairman Yasir Al-Rumayyan (C-L) and Newcastle United's English minority owner Amanda Staveley (C-R) react during the English Premier League match between Newcastle United and Tottenham Hotspur, Britain, 17 October 2021.  EPA-EFE/PETER POWELL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Amanda Stavely og Yasir Al-Rumayyan á leik Newcastle og Tottenham á sunnudag.

Sádar þurfa að fjárfesta í öðru en olíu

En með hlýnun jarðar er krafan um orkuskipti að verða háværari og háværari, og það er ljóst að þegar fram líða stundir verður eftirspurnin eftir olíu minni og minni. Og það vita Sádar, fjárfestingasjóðurinn PIF leikur stórt hlutverk í að sjá til þess að Sádar muni alltaf eiga sína peninga, hvað sem öllum orkuskiptum líður. 

Á fundi Amöndu Stavely og al-Rumayyan fyrir tveimur árum kynnti Stavely hugmyndir sínar um að kaupa Newcastle United, en til þess þyrfti hún aðstoð þeirra. al-Rumayyan leist vel á hugmyndir Stavely og sá þarna tækifæri fyrir PIF að græða peninga til lengri tíma litið; en mögulega sá al-Rumayyan þarna einnig önnur tækifæri. Tækifæri fyrir sádí-arabísk stjórnvöld að bæta ímynd sína út á við. 

Við víkjum betur að því hvers vegna það kann að hljóma sem góð hugmynd, en hugtakið sportswashing eða „íþróttaþvottur“ er það sem kemur óneitanlega upp í hugann hér. Öll könnumst við við hvítþvottinn góða, sem þýðir í raun að maður hreinsi orðspor sitt. Hugtakið bleikþvottur hefur einnig skotið upp kollinum á síðustu árum, þegar stofnanir, fyrirtæki og jafnvel heilu þjóðríkin reyna að upphefja málefni samkynhneigðra til að draga athyglina frá því að viðkomandi hafi kannski ekki altaf verið neitt sérstaklega góður við samkynhneygða. Íþróttaþvottur gegnir sama hlutverki; þú kaupir íþróttalið eða lýsir yfir stuðningi við íþróttafólk - til þess að draga athyglina frá sjálfum þér. Og nú virðast þjóðríki vera farin að gera einmitt það. 

epa02298148 Manchester City's Owner Sheikh Mansour (C) waves as he is applauded in the directors box for the first time during the English Premiership match between Manchester City and Liverpool at City of Manchester Stadium, Eastlands, Manchester,
 Mynd: EPA - FOTOSPORTS
Sheik Mansour, eigandi Manchester City, hefur hefur verið ásakaður um „íþróttaþvott.“

Prófið sem þarf að standast, og sms-ið frá bin Salman

En kaup PIF á Newcastle gengu ekki þrautalaust fyrir sig. Hvers vegna, jú mögulega vegna þess að það hafa ansi margir maðkar fundist í Sádi-arabísku mysunni síðustu síðustu árin. 

Til þess að geta keypt knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni þarf að standast ákveðin skilyrði, nokkurs konar próf sem kallaða er Premier League Owners and Directors Test. Í því prófi þurfa tilvonandi kaupendur að standast kröfur um að þeir hafi ekki gerst sekir um ýmiss konar glæpsamlega starfsefmi, hafa verið bannaðir af einhvers konar íþróttahreyfingum, eða gerst brotlegir við knattspyrnulögin, til að mynda tekið þátt í hagræðingu úrslita. 

PIF gerði rúmlega 300 milljóna punda tilboð í Newscastle í apríl í fyrra, og þann 14. apríl barst það inn á borð stjórnar ensku úrvalsdeildarinnar. Lokaákvörðunin, um hvort PIF stæðist prófið, var í höndum formanns stjórnar ensku úrvalsdeildarinnar. En þó nokkrir hreyfðu við mótbárum, þar á meðal katarska sjónvarpsstöðin beIN sports og bar fyrir sig stafræna sjóræningjastarfsemi Sáda. Þetta var áður en Katarar og Sádar slíðruðu sverðin, muniði. 

En það voru ekki aðeins þjóðríki með fjárhagslega hagsmuni í huga sem fundu kauptilboðinu ýmislegt til foráttu, heldur einnig mannréttindasamtök. Amensty International skilaði inn greinargerð til ensku úrvalsdeildarinnar þar sem fram kom að Sádar væru nú að reyna íþróttaþvott til að draga athyglina frá mannréttindabrotum stjórnvalda. 

Svo liðu dagar, vikur og mánuðir og ekkert heyrðist frá stjórnendum ensku úrvalsdeildarinnar. Richard Masters neitaði að tala við fjölmiðla. Í lok júlí á síðasta ári dró fjárfestingasjóðurinn PIF sig svo út úr kaupunum. Þetta er að taka of langan tíma, sögðu þau, og þolinmæði Mike Ashely var á þrotum. En þarna þótti ljóst að enska úrvalsdeildin var aldrei að fara að samþykkja þetta kauptilboð, og það vissu Sádar. Var það útaf mannréttindabrotum? Eða kannski einhverju öðru?

Enski miðilinn Daily Mail greindi svo frá því að þegar Sádar vissu þetta, varð þeim ljóst að þeir þyrftu að beita öðrum aðferðum til að fá kaupin í gegn. Það 27. júní í fyrra, fékk Boris Johnson sms skilaboð. Sendandinn var Mohammed bin Salman, krónprins og ríkisarfi Sádi-Arabíu:

Við gerum ráð fyrir því að enska úrvalsdeildin endurskoði ákvörðun sína og leiðrétti þessa RÖNGU niðurstöðu.

Ekki fer fleiri sögum af samskiptum Borisar Johnson og bin Salmans, en hafa ber í huga að Bretar og Sádar hafa löngum verið nánir bandamenn og viðskipti landanna á milli nema um sautján milljörðum dollara á ári hverju. Það væri nú leiðinlegt fyrir Bretland, ef Sádar þyrftu að endurskoða þetta góða samband. 

Og viti menn, hjólin fóru svo loks að snúast. En hver er þessi maður, Mohammed bin Salman?

epa04866294 A handout picture made available by the Office of the Egyptian President shows the Saudi Deputy Crown Prince, second Deputy Premier and Minister of Defense, Mohammed bin Salman (L), sitting with the Egyptian President, Abdel Fattah al-Sisi (R)
Mohammed bin Salman, krónprins Sádí Arabíu, og Abdel Fattah el-Sisi, forseti Egyptalands, í Kaíró í gær. Mynd: EPA - OFFICE OF THE EGYPTIAN PRESIDENT
Mohammed bin Salman ásamt Abdel Fattah al-Sisi, forseta Egyptalands.

Sádí-Arabía og krúnprinsinn bin Salman

Sádi-Arabía er sérstakt land, fornt menningarríki þar sem trúarbrögðin íslam fæddust þegar Múhameð spámaður var uppi á sjöundu öld. Þar eru helgustu borgir Múslima, Mekka og Medína. Á 1932 var konungsríkið Sádi-Arabía stofnað af Abdul-Azizbin Sad, og síðan þá hefur fjölskylda hans farið með alræðisvald í landinu; ættarveldi sem viðhefur stranga túlkun á Íslam eða svokallaðan wahhabisma, sem er íhaldssöm hugmyndafræði innan súnní-Íslam og á rætur sínar að rekja til átjándu aldar. Samkvæmt whahabisma eiga múslimar að sverja hollustueið við veraldlegan leiðtoga sinn, sem á móti gerir kröfu um algjöra hollustu og hlýðni þegna sinna, svo lengi sem hann stjórnar eftir lögum Guðs. 

Til að ganga úr skugga um að samfélagið fylgi þessu er eins konar „trúarlögregla“ starfrækt í Sádí-Arabíu, sem gengur í skugga um að kenningar wahhabisma séu í heiðri hafðar. Þær fela meðal annars í sér fimm ferðir á dag í mosku og að gæta þurfi að almennu siðgæði. Tónlist má ekki spila hátt, enginn má reykja eða drekka áfengi; hár karla má ekki vera of sítt og hár kvenna má ekki sjást.

Þá eru dauðarefsingar tíðar í Sádi-Arabíu, og hægt er að vera dæmdur til dauða fyrir eitt og annað - ekki aðeins fyrir að fremja morð - heldur einnig fyrir að fremja nauðgun, vopnað rán, fíkniefnabrot, framhjáhald, fyrir að vera samkynhneigður, og síðast en ekki síst; trúvillu. Frá 2007 til 2010 voru að minnsta kosti 345 einstaklingar teknir af lífi í Sádi-Arabíu af stjórnvöldum. Allir hinna dæmdu voru hálshöggnir opinberlega. 

Konungur Sádi-Arabíu er Salman konungur, sem tók við af bróður sínum árið 2015. Hann gerði son sinn, Mohammed bin Salman að krónprinsi og ríkisarfa árið 2017. Hann er einnig aðstoðarforsætisráðherra og varnarmálaráðherra landsins. En í raun er það Mohammed bin Salman, sem öllu stjórnar í Sádi-Arabíu. Hann hefur gert eitt og annað sem hefur vakið athygli á Vesturlöndum. Hann hefur til að mynda heimilað konum að taka bílpróf, vill auka vægi þeirra á vinnumarkaði og hefur stuðlað að aukinni fjölbreytni í efnahagsmálum. En hann er líklega þekktari fyrir önnur afrek, eins og borgarastyrjöldina í Jemen.

Arkitektin af borgarastyrjöldinni í Jemen og morðið á Khashoggi

Nokkrum árum áður en bin Salman varð krónprins höfðu deilur milli hópa í nágrannaríkinu Jemen farið að ágerast. Jemen liggur syðst á Arabíuskaganum og hefur landamæri að Sádi-Arabíu í norðri og Óman í austri. Þá gegndi bin Salman embætti varnarmálaráðherra og lagði hann höfuðáherslu á að brjóta niður skæruliðahreyfingu Hútí-fylkingarinnar, en fylkingin hafði náð stjórn á norðurhluta Jemen síðla árs 2014. Sádi-Arabía styður fyrrum forseta landsins, Ali Abdullah Saleh, en Hútíar komu honum frá völdum. Í kjölfarið hóf Sádí-Arabía hernaðaríhlutun í Jemen og hafa síðan þá staðið í átökum í nágrannaríkinu, í borgarastyrjöld sem hefur dregið yfir 100 þúsund manns til dauða, þar af 12 þúsund óbreytta borgara. Í kjölfarið hefur bin Salman verið kallaður arkitekt stríðsins í Jemen.

Þegar sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var myrtur í sendiráði Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi fyrir rúmum þremur árum, beindist athygli heimsins enn og aftur að krónprinsum. Khashoggi hafði farið í sendiráðið þennan örlagaríka dag til að útvega sér nauðsynlega pappíra svo hann gæti gifst tyrkneskri unnustu sinni. Þar var hann myrtur af sveit manna sem virðist hafa verið send til Tyrklands í þeim eina tilgangi að ráða Khashoggi af dögum, en Khashoggi hafði gagnrýnt stjórnvöld og bin Salman harðlega í fjölmiðlum vestanhafs, þar sem hann var búsettur.  

Spjótin beindust strax að bin Salman, sem hefur þó alla tíð neitað því að hafa fyrirskipað morðið á Khasoggi, þótt hann viðurkenni að Khashoggi hafi verið myrtur af Sádi-Aröbum. Það hafi hins vegar verið án hans vitundar. Dómstólar í Sádi-Arabíu dæmdu átta manns í fangelsi fyrir morðið en viðurkenndu ekki að stjórnvöld hefðu átt þátt í því. Þeir dæmdu höfðu þó reglulega sést með krónprinsinum. 

Að axla ábyrgð, í þessu tilfelli, fólst í að dæma sökudólgana í fangelsi, og taka einhverra þeirra af lífi.

En í febrúar á þessu ári birti bandaríska leyniþjónustan CIA skýrslu þar sem fram kom að afar litlar líkur væru á  því að Jamal Khashoggi hefði verið myrtur án samþykkis bin Salmans og morðið væri hluti af þeirri stefnu krónprinsins að bregðast af öllu afli við gagnrýni frá útlöndum. Samtökin Fréttamenn án landamæra hafa höfðað mál í Þýskalandi á hendur Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu, vegna morðsins á Khasoggi og saka krónprinsinn um glæpi gegn mannkyni og að hann hafi einnig staðið á bak við ofsóknir á öðrum blaðamönnum.

Mohammed bin Salman er stjórnarformaður PIF, sem nú á 80% hlut í enska úrvalsdeildarliðinu Newcastle United. Kaupin gengu nefnilega að endingu í gegn þann sjöunda október. Degi áður, aðeins degi áður, hlustandi góður, bárust fregnir af því að katarska sjónvarpsstöðin beinSports fengi að hefja útsendingar á ný í Sádi-Arabíu. Með öðrum orðum, Sádar heimila sýningar á enska boltanum á nýjan leik, með tilheyrandi tekjum fyrir ensku úrvalsdeildina. Þú hefur kannski lagt saman tvo og tvo nú þegar, hlustandi góður. Í prófinu góða, sem eigendur enskra úrvaldeildarliða þurfa að standast, er ekkert að finna um siðferðileg álitamál. 
 

epa08041108 Hatice Cengiz, fiancee of late Saudi journalist Jamal Khashoggi, attends a press conference with Agnes Callamard (unseen), United Nations Special Rapporteur on extrajudicial, summary or arbitrary executions, on the killing of Saudi journalist Jamal Khashoggi, at the Press Club in Brussels, Belgium, 03 December 2019. Agnes Callamard in a report blamed Saudi Arabia of the killing, calling it a premeditated extrajudicial execution.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA
Hatice Cengiz, ekkja Jamals Khashoggis.

Newcastle United er í dag langríkasta knattspyrnufélag heims og mun án nokkurs vafa fara úr því að vera miðlungslið á Englandi yfir í stórveldi í evrópskum fótbolta, stuðningsmönnum þess til mikillar ánægju. Og er víst ekki stuðningsmönnum Newcastle United, verkmanninum, kráreigandanum eða leikskólakennaranum, að kenna; að liðið hans er nú í eigu ríkis sem fremur mannréttindabrot á degi hverjum.

Ást fólks á fótbolta, og sér í lagi liðinu sem maður heldur með, fær heldur ekkert stöðvað. Ekki einu sinni sú staðreynd að hjálparhönd eigandans er grútskítug, og blóðug í þokkabót. Hatice Cengiz, ekkja Jamal Khasoggis, sagði í viðtali á dögunum að hún væri í áfalli yfir þessum fréttum; að enska úrvalsdeildin heimili morðingja að eiga lið í deildinni.

19.10.2021 - 08:30