
Undirbúningur hafinn að sölu Mílu
Síminn undirritaði í dag samkomulag við alþjóðlega franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian SA sem rekur Ardian Infrastructure Fund, um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu Símans á Mílu.
Í samkomulaginu felst engin trygging eða skuldbinding um að af viðskiptunum verði en ef af verður býðst íslenskum lífeyrissjóðum aðkoma að kaupunum að því er fram kemur í tilkynningu frá Símanum í dag.
Ætlunin er að skrifa undir skuldbindandi samning eins fljótt og verða má. Fjarskiptakerfi Mílu hefur mikilvægu innviðahlutverki að gegna á Íslandi, en það rekur innviði fjarskipta á landsvísu, ljósleiðarakerfið.
Höfuðstöðvar Ardian eru í París, það hefur á að skipta 800 manna starfsliði og rekur skrifstofur víðs vegar um heim. Félagið annast langtímafjárfestingu og hefur um 114 milljarða Bandaríkjadala í stýringu. Meðal fjárfesta í Ardian eru ríkisstofnanir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög og stofnanafjárfestar.
Viðskiptin eru það viðamikil að búast má við auknu streymi gjaldeyris og óvenjulegum hreyfingum á gengi krónunnar til skamms tíma. Ætlun Símans er að draga úr áhrifum á gjaldeyrismarkað með fulltingi Seðlabankans.
Einnig segir í tilkynningu Símans að hagsmunir neytenda verði tryggðir og unnið með hinu opinbera að upplýsingagjöf og öryggismálum. Mögulegt kaupverð er ekki gefið upp en gengi hlutabréfa í Símanum hefur hækkað um rúm 5 prósent það sem af er degi.
Í samkomulaginu felst að áreiðanleikakönnun sé nú þegar lokið, samningagerð langt komin og að fyrirhuguð viðskipti séu að fullu fjármögnuð. Nánari grein verður gerð fyrir málinu þegar niðurstaða fæst í viðræðunum að því er fram kemur í tilkynningu Símans.