Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þingmaður vill gera aðgengi að skotvopnum erfiðara

Mynd með færslu
 Mynd: KNR
Þingmaður vill herða vopnalöggjöf í Grænlandi til verndar börnum og þeim sem eiga við andlega erfiðleika að stríða. Lögreglan í landinu viðurkennir vandann en allmörg dæmi eru um að börn hafi orðið fyrir voðaskoti og látið lífið. Tíðni sjálfsvíga er jafnframt einhvers sú mesta í heimi.

Frá því er greint á vef grænlenska ríkisútvarpsins KNR að Aaja Chemnitz Larsen þingmaður Inuit Ataqatigiit vilji komast megi hjá slíkum atvikum með því að gera aðgengi að skotvopnum og notkun þeirra erfiðari.

Þingmaðurinn, sem sjálf hefur kynnst sjálfsvígum og voðaskotslysum af eigin raun, sagði við þingsetningu í síðustu viku að horfast verði í augu við að á Grænlandi sé veiðimannasamfélag og því vopn á flestum heimilum.

Einfaldast væri að skylda skotvopnaeigendur til að búa skotvopn sín gikklásum sem útiloka að óviðkomandi geti beitt þeim. Slíkir lásar séu auðfáanlegir ýmist með talnalæsingu eða lykli og séu einföld og ódýr öryggislausn.

Þannig megi með sameiginlegu átaki draga verulega úr hættunni á sjálfsvígum og slysaskotum. Með því að gera erfiðara að beita vopninu aukist líkur á að fólk sem burðast með íþyngjandi hugsanir fái tækifæri til að hugsa sig um áður en illa fer.

Bjørn Tegner Bay lögreglustjóri á Grænlandi segir að auðvelt aðgengi að byssum sé mikið vandamál í Grænlandi og tekur undir með Larsen að vert sé að bregðast við þannig að aðgengi og notkun vopna verði erfiðari.