Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leggur þrjá kosti fyrir stjórnvöld í nýju minnisblaði

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sóttvarnalæknir skilaði í morgun minnisblaði til heilbrigðisráðherra um næstu skref í sóttvarnaaðgerðum. Hann gerir ekki beinar tillögur, heldur leggur fram þrjá ólíka kosti.

Núgildandi reglugerð rennur út á miðvikudaginn og hefur Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir þegar sent heilbrigðisráðherra minnisblað. Í því fer hann yfir stöðu faraldursins og leggur fram þá kosti sem stjórnvöld standa frammi fyrir.

„Í mínum huga eru þrír kostir núna, að halda óbreyttri stöðu með óbreyttum takmörkunum, slaka á í skrefum eða aflétta öllu og ég svona reifa kostina og ókostina við það,“ segir Þórólfur sem leggur áherslu að draga verði lærdóm af fyrri ákvörðunum. Sjálfur hallast hann að því að varfærin skref séu ákjósanlegust. „Ég hef alltaf talað fyrir því að við gerðum þetta hægt og örugglega en það eru náttúrlega bara mismunandi sjónarmið í því og það eru stjórnvöld sem þurfa að taka endanlega ákvörðun um þetta.“

Þórólfur segir stöðuna heilt yfir góða en þó hafi smitum fjölgað síðustu daga og um helgina. Fjórar innlagnir voru á sjúkrahús um helgina. Tilfellum á Akureyri hefur fækkað töluvert og eru flest tilfellin sem nú greinast á höfuðborgarsvæðinu.

Þórólfur segir aukningu síðustu daga mögulega til marks um að fólk sé farið að virða reglurnar að vettugi. Sjálfur segist hann finna fyrir aukinni gagnrýni á hans störf en að hann taki hana ekki nærri sér. „Ég lít nú ekki á þetta sem vinsældakosningu, alls ekki þannig. Mér finnst hins vegar miður þegar menn tala eða segi beint út að þetta sé búið og covid sé bara búið. Ég held að það sé ekki rétt og ég held að menn ættu að varast að tala þannig óvarlega. En vissulega er það þannig að fólk er farið að slaka verulega á og kannski hlustar ekki jafnmikið á það sem sagt er. Það er bara partur af þessu ferli og óhjákvæmilegt að fólk fari að líta til annarra átta.“

Magnús Geir Eyjólfsson