Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Landsbankinn hækkar vexti

18.10.2021 - 22:05
Landsbankinn
 Mynd: Landsbankinn - Ljósmynd
Íbúðalánavextir Landsbankans hækka á morgun í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabanka Íslands 6. október. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hækka um 0,20 prósentustig, fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum til 60 mánaða hækka um 0,10 prósentustig.

Vextir á verðtryggðum íbúðalánum, bæði breytilegir og fastir, verða óbreyttir. Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 0,20 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum verða óbreyttir.

Þá hækka yfirdráttarvextir um 0,25 prósentustig, vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka um 0,15 til 0,25 prósentustig og vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka um 0,15 til 0,25 prósentustig. Vextir almennra veltureikninga verða óbreyttir.

Í yfirlýsingu bankans kemur fram að vaxtaákvörðunin sé tekin í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans 6. október. Þá hækkaði Seðlabankinn vexti um 0,25 prósentustig. Þá taka breytingarnar einnig mið af ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði og öðrum fjármögnunarkjörum bankans.

Ný vaxtatafla tekur gildi á morgun. „Breytingar á vöxtum á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taka þó gildi í samræmi við tilkynningar þar að lútandi,“ segir í yfirlýsingunni.