Verðlaunahafinn var áðurnefnd Carmen Mola fyrir bókina La Bestia, eða Skepnan, sem gerist í Madrid á kólerutímum 1834. Þegar Mola átti að flytja þakkarræðuna var það ekki kona sem steig á svið heldur þrír miðaldra karlmenn.
Carmen Mola reyndist öllum að óvörum vera dulnefni þeirra Agustín Martínez, Jorge Díaz og Antonio Mercero, þekktra höfunda handrita sjónvarpsþátta. Hún hefur verið hyllt fyrir feminíska nálgun í skrifum sínum um rannsóknarlögreglukonuna Elena Blanco.
Á vefsíðu umboðsmanns Mola segir að hún sé fædd í Madrid sem skrifaði undir dulnefni til að forðast sviðsljósið. Á öllum ljósmyndum snýr hún baki í myndavélina. Fyrsta skáldsaga hennar, La novia gitana, kom út árið 2018.
Fullyrt var að Mola væri háskólaprófessor sem byggi í höfuðborginni með eiginmanni og börnum en engan grunaði að karlarnir þrír væru rithöfundurinn kunni.
Skáldsögur Mola eru þekktar fyrir myndrænar lýsingar á blóðugu ofbeldi sem þykir í hrópandi mótsögn við það kyrrláta líf sem gefið var í skyn að hún lifði.
Antonio Mercero segir í samtali við spænska dagblaðið El Pais að þeir félagarnir hafi ekki hafa falið sig á bak við nafn konu, þeir hafi einfaldlega notað nafn við skriftirnar.
Þeir hafi ekki haft humynd um hvort nafn sem almennt tilheyrir konum yki sölu bókanna, en Mercero kveðst þó efins um það. Beatriz Gimeno, rithöfundi og fyrrverandi formanni Kvennastofnunar Spánar er hins vegar ekki skemmt.
„Það er ekki nóg með að þeir hafi notað dulnefni um árabil, heldur bjuggu þeir til gervimanneskju og mættu í viðtöl í hennar nafni. Þeir gerðu hvað þeir gátu til vekja áhuga lesenda og fjölmiðla á bókunum, þeir eru hreinlega svindlarar,“ segir Gimeno.