Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kaupmenn óttast að jólavörur berist ekki í tæka tíð

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ekki er hægt að segja til um hvenær vöruflutningar milli landa komast í samt horf og þeir voru áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Þetta segir Björn Berg Gunnarsson deildarstjóri greiningar- og fræðslu hjá Íslandsbanka. Þetta veldur vöruskorti og verðhækkunum. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að kaupmenn óttist að jólavörur skili sér ekki í tæka tíð fyrir jól. Ekki sé vöruskortur í landinu en vegna aðstæðna erlendis séu vörur lengi að berast.

„Það er ekki svona fyrirsjáanlegt að við komumst aftur á sama stað t.d. á flutningum á vörum milli landa. Það eru gríðarlegar verðhækkanir á að bóka gám. Ef þú ætlar að flytja inn þurrkaðar apríkósur frá útlöndum þarftu að kaupa þér gám sem kostar þrisvar sinnum meira en hann kostaði í vor. Eitt dæmi sem t.d. margir hafa séð er að Sony veðjar öllu á að gera stóra leikjatölvu sem heitir Playstation 5. Og það er hvergi hægt að fá hana. Hvernig getur þetta verið? Hvernig er þetta með bílaleigurnar hérna á Íslandi sem eru að gera sig klárar fyrir alla ferðamennina sem eru að fara koma en segja: Heyrðu það er dálítið erfitt að fá bíla,“ segir Björn Berg í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2.

Flytjum inn verðbólgu

„Þetta auðvitað endar bara á einn veg. Það er það þegar minna er um framboð en eftirspurnin sú sama eða jafnvel meiri þá ætti verð að hækka. Og nú eru flestir að velta því fyrir sér hversu lengi þetta mun vara og hvort þetta verði ekki bara skammvinnt af því að ástæðan er svo augljós. Ástæðan er covid. Þetta hefur síðan þau áhrif á okkur Íslendinga er að við erum að flytja inn þessa verðbólgu,“ segir Björn Berg.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás eitt.

„Það er í raun og veru framboðsskortur og hefur verið vandræði með að framleiða allar lykilvörur til matvælaframleiðslu og allar lykilvörur til almennrar iðnaðarframleiðslu; málma og plast,“ segir Andrés. Aðstæður á mörkuðum séu fordæmalausar. „Öll þessi hráefni hafa hækkað á heimsmarkaði sem nemur tugum prósenta,“ segir Andrés. Alþjóðlegir greiningaraðilar óttist að ástandið eigi eftir að versna. „Menn eru almennt að spá því að þetta ástand muni vara vel fram á næsta ár,“ segir Andrés.

Bið eftir vörum en ekki vöruskortur

Ekki sé hægt að tala um að hér á landi sé vöruskortur, „en afgreiðslutími vara hefur lengst mjög mikið. Við erum að tala um húsgögn og bíla. Ákveðnir íhlutir í bíla eru framleiddir í tiltölulega fáum verksmiðjum í Víetnam sem hafa verið lokaðar. Bifreiðaumboðin á Íslandi hafa aldrei setið uppi með eins lítinn lager og núna,“ segir Andrés.

Því var spáð þegar pestin gerði vart við sig að einkaneysla myndi minnka. „Nærri 30% af allri framleiðslu heimsins er í Kína. Sjö afkastamestu hafnir heimsins eru í Kína. Skipafélagið Mærsk tók ákvörðun um að setja verulegan hluta af flutningaskipum sínum í brotajárn. Það hefur leitt til þess að flutningskostnaður á þessum löngu leiðum hefur margfaldast,“ segir Andrés.

Skynsamlegt að kaupa jólagjafirnar snemma í ár

Hvaða áhrif hafa tafir á vöruflutningum á jólahald? Þarf að kaupa jólagjafirnar óvenju snemma í ár?

„Ég held að það gæti alveg orðið þannig. Við viljum alls ekki mála skrattinn á vegginn en við höfum alveg heyrt það að það eru ákveðna áhyggjur hjá fyrirtækjum að þessar árstíðabundnu vörur, jólavörurnar, séu kannski ekki að koma á tilsettum tíma. Næstu tveir mánuðir eru mikilvægasti tíminn fyrir fyrirtæki í verslun. Ef það er vandamál með vörur sem eru eingöngu seldar og eru eingöngu á boðstólum á þessum tíma ársins, þá segir það sig sjálft að það hefur áhrif á fyrirtækin í þessari í grein,“ Andrés.

Vonast eftir betri tíð

„Það sem flestir virðast vera að vona er þetta: Að innflutta verðbólgan fari að hjaðna eftir því sem hlutirnir fara að ganga betur á alþjóðlegum mörkuðum. Að ferðamannastraumurinn haldi áfram að aukast og okkur gangi vel þar vegna þess að þetta er langfljótlegasta, auðveldasta og umfangsmesta leiðin til að koma hingað inn gjaldeyri. Þessi gjaldeyrir sem kemur hingað í vösunum á ferðamönnum honum er skipt yfir í krónu og það styður a.m.k. við hana ef ekki styrkir hana. Styrking á krónu lækkar erlent vöruverð hingað inn og dregur úr verðbólguþrýstingi,“ segir Björn Berg.