Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ég var heilt ár að mála mig út úr sorgarferlinu

Mynd: RÚV / RÚV

Ég var heilt ár að mála mig út úr sorgarferlinu

18.10.2021 - 15:18

Höfundar

Hallgrímur Helgason myndlistarmaður og rithöfundur sýnir ný verk í safnaðarheimili Neskirkju. Sýningin heitir Það þarf að kenna fólki að deyja og er unnin í minningu um föður Hallgríms.

Á sýningu Hallgríms gefur að líta málverk og teikningar sem kviknuðu út frá andláti föður listamannsins, sem lést fyrir réttu ári. Hallgrímur málar bæði krabbamein og dánarstundir auk tilgátuportretta af Dauðanum sjálfum. Einnig fylgja nokkur verk af persónulegu tagi sem urðu til eftir langar setur listamannsins á líknardeildinni.

„Pabbi sagði þetta oft á banalegunni, það þarf að kenna fólki að deyja,“ segir Hallgrímur í viðtali í Víðsjá á Rás 1. „Hann var sjálfur verkfræðingur, mjög skipulagður og með allt á hreinu og gekk frá öllum erfðamálum og allt í þaula. En svo var hann kominn á óreiðuslóðir, einhverjar torfærur með engum vegum eða brúm, og hann upplifði sig þá óundirbúinn. Ég túlkaði það þannig. Þess vegna hafi hann sagt þetta.“

En þá vaknar önnur spurning, hvort það þurfi ekki að kenna fólki að syrgja líka? Hallgrímur hlaut sjálfur mikla eldskírn í sorginni fyrir 6 árum þegar barnabarn hans lést í fæðingu. „Það var mesta martröð sem ég hef lent í. Maður kom því svo sem ágætlega skólaður inn í andlát pabba. En dauðinn er svolítið mikið tabú hjá okkur og maður verður var við að sumum finnist þetta óþægileg sýning. Einmitt vegna þess að fólk veigrar sér við því að horfast í augu við dauðann.“

Hallgrímur Helgason myndlistarmaður og rithöfundur sýnir ný verk í safnaðarheimili Neskirkju. Sýningin heitir Það þarf að kenna fólki að deyja og er unnin í minningu um föður Hallgríms.
 Mynd: Hallgrímur Helgason - Það þarf að kenna fólki að

Þessi gatnamót lífs og dauða eru mjög spennandi, segir Hallgrímur. Aðalmálverk sýningarinnar sýnir föður hans liggjandi í sjúkrarúmi samtímans. „Ég ætlaði að sleppa sjúkrarúminu. En það var svo mikil sögn í sjúkrarúminu, það er ramminn utan um þetta, nánast krossinn sem hann hangir á. Maður er forvitinn sem listamaður og þegar ég sá pabba sjá endalokin blasti við mér mögnuð sýn. Ég var að reyna að ná þessu í þetta málverk. Það er eins og hann horfi upp til guðs síns, þó hann hafi nú ekki verið trúaður, en hann horfist í það minnsta í augu við endalokin. Þá kemur þessi svipur sem er svo magnaður fyrir mér.“

En er Hallgrímur trúaður?

Hallgrímur Helgason myndlistarmaður og rithöfundur sýnir ný verk í safnaðarheimili Neskirkju. Sýningin heitir Það þarf að kenna fólki að deyja og er unnin í minningu um föður Hallgríms.

„Ég get aldrei svarað þessari spurningu en það er alltaf eitthvað í manni. Ég hef allavega ekki sagt mig úr þjóðkirkjunni, enda þarf maður oft á henni að halda. Það er smá tilgerð í því að segja sig úr þjóðkirkjunni og koma svo skríðandi, yfirleitt í líkkistunni sjálfri.“

Það er alltaf erfitt að missa foreldri, þó faðir Hallgríms hafi átt farsælt líf og hans nánustu fengið tíma til að kveðja hann vel, þá fylgir því óumflýjanlega sorg. „Þetta er kannski framlenging á sorgarferlinu, mér hefur tekist að lengja í því. Ég var heilt ár að mála mig út úr því. Það getur allt orðið tilefni að tjáningu í myndlist og skriftum, þannig að við getum endalaust haldið áfram. Ég gæti þess vegna bara gert þetta það sem eftir er, þangað til minn eigin dauðdagi mætir.“

Viðburður sem þessi kveikir hugsanir um manns eigin dauða. „Það sem breytti kannski mestu fyrir mér var þegar Þorvaldur Þorsteinsson, félagi minn, myndlistarmaður og rithöfundur, dó allt of snemma í blóma lífsins. Stuttu áður fór Birgir Andrésson og allt í einu var mín kynslóð farin að deyja. Þetta var svo mikið sjokk. Það breytti mér, ég hætti til dæmis að pæla í hversdagsatriðum, ég hætti að pæla mikið í peningum og allt varð hjáróma eftir að þessi staðreynd blasti við. Sama þegar pabbi manns deyr. Þá gerist þetta saman og þá finnur maður að þetta getur alltaf komið einn daginn. Það litar svolítið daga manns. Maður reynir að gera sem mest áður en maður fer.“

Guðni Tómasson ræddi við Hallgrím Helgason, um dauðann, sorgina og listina, í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sárt að kveðja föður sinn á líknardeild

Bókmenntir

Hallgrímur undir vökulu auga borgara í upplestrarferð

Myndlist

Listheimur logar yfir slaufaðri sýningu á verkum Guston

Bókmenntir

Grét yfir lagi og byrjaði með textahöfundinum