Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Colin Powell lést af fylgikvillum COVID-19

18.10.2021 - 12:15
US State Secreraty Colin Powell salutes upon arrival in Halim military airport  in Jakarta, Indonesia on Thursday, 1 July 2004.  EPA/DENNIS M. SABANGAN
 Mynd: EPA
Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hershöfðingi, þjóðaröryggisráðgjafi og yfirmaður bandaríska herráðsins, lést í dag, 84 ára að aldri. Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi veikst af COVID-19 þrátt fyrir að vera bólusettur að fullu gegn kórónuveirunni og fylgikvillar sjúkdómsins hafi dregið hann til dauða.

Powell var sonur jamaískra innflytjenda. Hann gekk ungur í bandaríska herinn og reis þar til æðstu metorða. Herstjórn hans í Persaflóastríðinu á tíunda áratug síðustu aldar þótti slík að skorað var á hann að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna, sem hann hafnaði.

Þegar George Bush yngri var kjörinn forseti fór hann þess á leit að Colin Powell tæki að sér embætti utanríkisráðherra. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti skipanina mótatkvæðalaust. Powell þótti hófsamur og var vinsæll meðal starfsliðs utanríkisráðuneytisins, fyrir það meðal annars að biðja um að allar skýrslur sem honum voru sendar væru stuttar og hnitmiðaðar, helst ekki lengri en ein blaðsíða.

Ferill Powells í embætti utanríkisráðherra varð þó endasleppur. Árið 2003 fullyrti hann við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að Írakar byggju yfir efnavopnum og því væri full ástæða fyrir því að ráðast inn í landið. Síðar kom í ljós að þessar upplýsingar áttu ekki við rök að styðjast og talaði Powell ávallt um að þetta væri svartasti bletturinn á ævistarfi hans.

Þrátt fyrir að Colin Powell væri Repúblikani lýsti hann tvívegis yfir stuðningi við forsetaframboð Demókratans Baracks Obama. Hann studdi Hillary Clinton til embættisins árið 2016, kvað hana hæfa til að gegna því, en mótframbjóðandann Donald Trump ekki. Í tölvupósti sem hakkarar komust yfir lýsti Powell Trump sem þjóðarskömm og alþjóðlegu úrhraki, rasista sem höfðaði í málflutningi sínum einkum til fátæks hvíts fólks og verst innrættu stuðningsmanna Repúblikanaflokksins.

Fréttin hefur verið uppfærð.