Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bjartsýni á virkni nýs bóluefnis Valneva eftir prófanir

epa09522712 Healthcare workers prepare Covid-19 vaccinations at the vaccination centre at Sandown Racecourse in Melbourne, Australia, 14 October 2021.  EPA-EFE/JAMES ROSS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Helsti rannsakandi  fransk-austurríska lífefnafyrirtækisins Valneva kveðst vongóður um að nýtt bóluefni þess gegn COVID-19 leiki stórt hlutverk í að binda endi á kórónuveirufaraldurinn. Þriðja stigs prófanir lofa góðu.

Fyrirtækið tilkynnti í morgun um jákvæðar niðurstöður þriðja stigs klínískra prófana á efninu með þátttöku rúmlega fjögur þúsund Breta. Bresk stjórnvöld hugðust kaupa um 100 milljónir skammta en drógu þá ákvörðun til baka. 

Efnið sem gengur undir vinnsluheitinu Valneva VLA2001 byggir á óvirkjaðri kórónuveiru. Valneva hefur þegar sótt um markaðsleyfi á Bretlandseyjum og undirbýr umsókn til Lyfjastofnunar Evrópu.

Adam Finn, prófessor í barnalækningum við háskólann í Bristol, helsti rannsakandi fyrirtækisins, segir samsetningu efnisins byggja á hefðbundnari aðferð við framleiðslu bóluefna en önnur þau sem hingað til hefur verið beitt gegn COVID-19.

„Niðurstöðurnar benda til að bóluefnið geti leikið viðamikið hlutverk í því að sigrast á faraldrinum,“ segir Finn.  Enn eru það Bretar einir sem samið hafa um kaup á efninu, sem framleitt er í Skotlandi.

Samkvæmt upplýsingum frönsku ríkisstjórnarinnar standa enn samningaviðræður yfir milli framleiðandans og Evrópusambandsins um kaup á bóluefninu.