Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir 1.800 byggingar horfnar undir hraun á La Palma

17.10.2021 - 03:15
Erlent · Hamfarir · eldgos · kanaríeyjar · Spánn · Evrópa
epa09526218 View of Cumbre Vieja volcano as seen from El Paso village in La Palma, Canary Islands, Spain, 15 October 2021. A new eruptive point has opened in the Cumbre Vieja volcano next to the main cone, which expels gases and ash but does not emit lava.  EPA-EFE/MIGUEL CALERO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Rauðglóandi hraunelfar steypast enn niður hlíðar Kanaríeyjunnar La Palma, rúmum fjórum vikum eftir að gos hófst í eldfjallinu Cumbre Vieja. Á þessum tíma hafa 1.817 byggingar horfið undir hraunflauminn og eyðilagst samkvæmt frétt á spænsku sjónvarpsstöðinni RTVE, og hafa þá 269 byggingar farið undir hraun frá því síðast var talið.

Tugir jarðskjálfta mældust á La Palma í gær. Sá öflugasti mældist 4,6 að stærð og upptök hans voru á 37 kílómetra dýpi. Haft er eftir jarðskjálftafræðingnum Eduardo Suarez hjá Jarðvísindastofnun Spánar að af skjálftavirkninni megi ráða að varla hætti að gjósa í bráð.

Um sex þúsund manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín á La Palma vegna gossins.