Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Var sendur á forvarnarnámskeið gegn öfgahyggju

17.10.2021 - 04:48
epa09527664 Members of the public attend a vigil for Sir David Amess near the crime scene where the MP for Southend West was stabbed to death in Leigh-on-Sea, Britain, 16 October 2021. Amess was reportedly stabbed several times on 15 October at a church in Leigh-on-Sea while holding a constituency surgery and later died of his injuries. The police are treating the killing of Amess as a terrorist incident.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
Hópur fólks kom saman í Leigh-on-Sea að kvöldi laugardags til að minnast David Amess, sem myrtur var í kirkju í bænum á föstudagskvöld. Mynd: EPA-EFE - EPA
Maðurinn sem talinn er hafa myrt breska þingmanninn David Amess á föstudag hafði áður vakið athygli lögreglu og var skikkaður á forvarnarnámskeið þar sem þess er freistað að snúa öfgamönnum og mögulegum öfgamönnum af rangri braut.

Meintur morðingi er 25 ára gamall Breti, Ali Harbi Ali að nafni, og er í haldi bresku hryðjuverkalögreglunnar í Lundúnum, þar sem hann sætir yfirheyrslum. Hann réðst á Amess á opnum kjördæmafundi í kirkju í smábænum Leigh-on-Sea í Essex og stakk hann margsinnis með hnífi.

Samkvæmt frétt BBC var Ali sendur á fyrrgreint námskeið fyrir nokkrum árum, en kláraði það ekki. Hann var heldur aldrei settur á skrá lögreglu yfir öfgamenn sem ástæða þætti til að fylgjast sérstaklega með.

Kennarar, heilbrigðisstarfsfólk og jafnvel almennir borgarar geta sent yfirvöldum ábendingar um fólk sem það telur hallt undir hættulegar öfgakenningar. Þær ábendingar eru teknar til skoðunar hjá sérfræðihópi lögreglu, félagsráðgjafa og fleira fagfólks, sem ákvarðar hvort ástæða þyki til að grípa til einhverra aðgerða og þá hverra.

Sir David Amess var 69 ára gamall þingmaður breska Íhaldsflokksins, kvæntur og fimm barna faðir. Hann hafði verið þingmaður frá 1983.