
Var sendur á forvarnarnámskeið gegn öfgahyggju
Meintur morðingi er 25 ára gamall Breti, Ali Harbi Ali að nafni, og er í haldi bresku hryðjuverkalögreglunnar í Lundúnum, þar sem hann sætir yfirheyrslum. Hann réðst á Amess á opnum kjördæmafundi í kirkju í smábænum Leigh-on-Sea í Essex og stakk hann margsinnis með hnífi.
Samkvæmt frétt BBC var Ali sendur á fyrrgreint námskeið fyrir nokkrum árum, en kláraði það ekki. Hann var heldur aldrei settur á skrá lögreglu yfir öfgamenn sem ástæða þætti til að fylgjast sérstaklega með.
Kennarar, heilbrigðisstarfsfólk og jafnvel almennir borgarar geta sent yfirvöldum ábendingar um fólk sem það telur hallt undir hættulegar öfgakenningar. Þær ábendingar eru teknar til skoðunar hjá sérfræðihópi lögreglu, félagsráðgjafa og fleira fagfólks, sem ákvarðar hvort ástæða þyki til að grípa til einhverra aðgerða og þá hverra.
Sir David Amess var 69 ára gamall þingmaður breska Íhaldsflokksins, kvæntur og fimm barna faðir. Hann hafði verið þingmaður frá 1983.