Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vantar samstarfsflokk og Framsókn kæmi vel til greina

Mynd: Silfrið / RÚV
Sjálfstæðisflokkinn í borginni vantar flokk til að vinna með í meirihluta, að sögn oddvitans Eyþórs Arnalds. Hann segir að gangi Framsóknarflokknum vel í borgarstjórnarkosningum næsta vor komi hann til greina sem slíkur. Sjálfur ætlar Eyþór að óbreyttu að bjóða fram krafta sína til að leiða lista Sjálfsstæðismanna. 

„Framsókn kom ekki inn manni síðast. Okkur vantaði í raun og veru partner,“ sagði Eyþór í Silfrinu í morgun. „Ég tel að þetta kunni að breytast. Við felldum meirihlutann síðast, það gleymist, Viðreisn ákvað síðan að koma til liðs við meirihlutann. Þannig að við náðum því marki að vera stærsti flokkurinn með yfir þrjátíu prósent og fella meirihlutann. Við þurfum bara að gera það aftur en okkur vantar partner. Og partnerinn var ekki til síðast og ég er alveg viss um að það kemur eitthvað annað núna upp úr kössunum en síðast.“

Eyþór leiddi lista Sjálfstæðismanna í síðustu borgarstjórnarkosningum eftir að hafa fengið mesta stuðning í leiðtogaprófkjöri. Hann kveðst búast við því að einhvers konar prófkjör verði haldið fyrir kosningarnar í vor og að hann gefi að öllum líkindum kost á sér í oddvitasætið. 

Hér má nálgast Silfrið í heild sinni. 
 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir