Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Um fjórðungur grunnskólakennara með einkenni kulnunar

17.10.2021 - 21:02
Mynd: RÚV / Skjáskot
Meira en einn af hverjum fjórum grunnskólakennurum er með alvarleg einkenni kulnunar og hátt í fjögur prósent þeirra ættu að leita sér tafarlaust hjálpar. Þetta sýnir ný rannsókn. Talsvert fleiri kennarar mælast með kulnunareinkenni nú en fyrir kórónuveirufaraldurinn. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir að því miður ekki ekki verið hugað nægilega vel að heilsu kennara.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur og Hjördísar Sigursteinsdóttur á kulnun meðal grunnskólakennara á tímum COVID-19. Þar var spurt að hversu miklu leyti kennararnir upplifðu líkamlega og andlega þreytu og örmögnun í starfi sínu. Niðurstöðurnar voru bornar saman við rannsókn sem gerð var fyrir tveimur árum og í ljós kom að fleiri kennarar mælast með kulnun nú en áður og þá eru fleiri með alvarleg einkenni. 

4% ættu að leita aðstoðar tafarlaust

Hátt í 24% kennaranna mældust með kulnunareinkenni sem þeir ættu að gera eitthvað í og um 4% til viðbótar mældust svo útbrunnir að þeir ættu að leita sér aðstoðar tafarlaust. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður félags grunnskólakennara, segir að niðurstöðurnar hafi því miður ekki komið á óvart. „Þetta er svona þessi tilfinning sem ég hef haft um nokkurt skeið, að það væri orðið alvarlegt ástand í heilsufari kennara á Íslandi.“

Skortur á kennurum gæti verið ein ástæða kulnunar

Ástæðurnar eru ýmsar, að sögn Þorgerðar Laufeyjar. „Ein gæti til dæmis verið sú að það er kennaraskortur og það er mikil hreyfing, það er að segja leiðbeinendur eru ráðnir til eins árs og það er álag að vera kennari með stöðugt nýtt samstarfsfólk.“ 

Jafnframt sé vitað að faraldurinn hafi haft mikil áhrif á alla, bæði kennara og aðra. „Því miður þá hefur ekki verið tekið kannski nægilega vel utan um líðan íslenskra kennara.“ 

Fá mörg símtöl í viku frá aðframkomnum kennurum

Leita kennarar til ykkar með einkenni? „Já, það er mjög mikið og við fáum símtöl í hverri einustu viku og mörg þar sem kennarar eru komnir að þrotum, faglegum þrotum og eru þá að leita upplýsinga um hvað skuli gera. Ég segi eins og allir, það besta er að fara í vinnuna og reyna að finna lausn þar en því miður þá eru fáar bjargir til.“ Þorgerður Laufey segir að handleiðsla sé mikilvæg fyrir kennara svo þeir geti unnið sig út úr þeim atvikum og málum sem upp komi. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir