Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Melbourne opnuð á ný eftir heimsins lengstu lokanir

17.10.2021 - 07:36
epa09526500 A person is seen Kitesurfing at the beach in Brighton, Melbourne, Australia, 16 October 2021. All authorised Victorian workers spanning from retail staff to pro sportspeople must now be partially vaccinated for COVID-19 or have a booking to go to work.  EPA-EFE/DANIEL POCKETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Heilbrigðis- og borgaryfirvöld í Melbourne, höfuðborg Viktoríuríkis og næst-fjölmennustu borg Ástralíu, búa sig undir að slaka verulega á ströngum takmörkunum á ferða- og samkomufrelsi borgarbúa síðar í vikunni, eftir lengstu COVID-19 lokanir sem þekkjast í borgum heims.

Daniel Andrews, ríkisstjóri Viktoríu, greindi frá tilslökununum í morgun og sagði þær mögulegar vegna hækkandi hlutfalls bólusetninga, en gengið er út frá að 70 prósent íbúa Viktoríuríkis verði fullbólusett áður en vikan er úti.

„Dagurinn í dag er góður dagur,“ sagði Andrews þegar hann tilkynnti tilslakanirnar, „og Viktoríubúar geta verið stoltir af þeim árangri sem þeir hafa náð. Frá klukkan 23.59 á fimmtudagskvöld verða engar lokanir, engar takmarkanir á frelsi fólks til að yfirgefa heimili sín og ekkert útgöngubann um nætur.“

Þegar þetta gerist verða um það bil fimm milljónir Melbournebúa búnar að fara í gegnum sex allsherjar lokanir á borginni frá því í mars árið 2020, sem samtals hafa varað 262 daga. Samkvæmt áströlskum fjölmiðlum er þetta lengsta COVID-19 lokun sem þekkist í nokkurri borg. Næst á eftir Melbourne kemur Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, þar sem strangar lokanir hafa gilt í samtals 234 daga frá upphafi heimsfaraldursins. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV