Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hátt í 20 bílar lent utan vegar við Reynisfjall

17.10.2021 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd:Bryndís Harðardó - RÚV
Leiðindaveður gengur nú yfir sunnanvert landið. Fjöldi ökumanna hefur lent í vandræðum á Hringveginum í krapa og hálku. Fylgdarakstur verður yfir Reynisfjall í kvöld.

Hátt í tuttugu bílar hafa farið út af þjóðveginum við Reynisfjall í Mýrdal. Bryndís Harðardóttir og fjölskylda hennar reka dráttarbílaþjónustu í Vík. Hún og hennar fólk hafa haft í nægu að snúast við að aðstoða ökumenn við að komast leiðar sinnar í allan dag. 

„Hann er búinn að vera annasamur. Það er búið að vera síðan 9 í morgun, þá fór fyrsti bíllinn út af og það er verið að því enn. Þeir fljóta upp í krapa. Það er svo hvasst, þeir halda þeim ekki inni á veginum og fljóta upp í krapa. Það er stöðugur snjómokstur en þeir halda ekki í þannig að það næst ekki að hreinsa það af. Það þyrftu að vera 2 bílar á þessum stutta kafla.“ segir Bryndís.

Hún segir þetta aðallega vera erlenda ferðamenn sem telja sig vera á snjódekkjum en raunin er yfirleitt önnur. Vindhviður hafa farið yfir 30 metra á sekúndu á fjallinu. Fylgdarakstur verður yfir Reynisfjall í kvöld. Umferð verður stöðvuð sitt hvoru megin fjallsins uns fylgdarbíll kemur. Veðrið versnar svo með kvöldinu og hafa bændur í Öræfum hýst fé sem er enn úti, fyrir nóttina.

Björgunarsveitir hafa ekki þurft að koma fólki til aðstoðar það sem af er degi. 
Búið er að loka Dynjandisheiði og Nesjavallaleið. Á öðrum fjallvegum er vetrarfærð, snjóþekja og hálka. Veginum við Hafnarfjall var lokað í skamma stund seinni partinn á meðan bíll var dreginn upp á veginn. Fyrr í dag var Hellisheiði einnig lokað í skamma stund á meðan vörubíll var losaður úr krapa. 

Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd: Bryndís Harðard? - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd: Bryndís Harðard? - RÚV