Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Efnahagsleg tækifæri í grænum lausnum

Virginijus Sinkevicius, ráðherra umhverfis- og sjávarútvegsmála hjá ESB.
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Nýta þarf efnahagsleg tækifæri sem grænar lausnir veita, að mati ráðherra umhverfismála hjá Evrópusambandinu. Þá þurfi að skapa jafnvægi milli efnahagslegra og umhverfislegra hagsmuna. Ný stefna ESB um norðurslóðir var kynnt á nýafstöðu þingi Norðurskautsráðsins.

Tilgangur stefnunnar er að halda friði og stöðugleika á svæðinu, berjast gegn loftslagsbreytingum og vinna með íbúum svæðisins að sjálfbærri þróun. Virginijus Sinkevicius ráðherra Evrópusambandsins um málefni umhverfis, hafs og fiskveiða segir sambandið einkum vilja huga að íbúum. „Og tryggja að svæðið líði ekki fyrir áhrif loftslagsáhrifa, samkeppni milli þjóða og aukinn efnahagslegan þrýsing heldur að svæðið bæti lífsgæði þeirra sem þar búa.“

Sinkevicius segir norðurslóðalöndin þurfa að vinna saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, líka þau sem eru kannski tortryggnari á slíka samvinnu. Þá séu áskoranir í samskiptunum við Rússland og Kína. „Baráttan gegn loftslagsbreytingum er ekki auðveld og hún krefst mikillar vinnu við að þjappa fólki saman eins og hægt er.“

Sinkevicius segir að alþjóðleg efnahagsleg samkeppni sé helsta hindrunin, og samhliða því það að gera fólki grein fyrir afleiðingum þess að hlýnun jarðar er þrisvar sinnum hraðari á norðurslóðum en annars staðar. „Við viljum beina sjónum okkar að því að jafnvægi náist á norðurslóðum milli efnahagslegra þátt og verndar líffræðilegs fjölbreytileika, vistkerfa og hafsvæða á norðurslóðum.“

Þá telur Sinkevicius nauðsynlegt að nýta þurfi efnahagslegu tækifærin í grænni orku. Þau hafi sést í faraldrinum. „Grænu frumkvöðlastörfin eru mun varanlegri. Ég held að þetta sé tækifæri sem allar þjóðir gætu nýtt sér, sérstaklega ef þau verða framarlega í þessum lausnum.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV