Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Blóðug mótmæli í einu síðasta konungsríki Afríku

17.10.2021 - 03:10
epa06680489 (FILE) - King Mswati III of Swaziland delivers his address during the United Nations Sustainable Development Summit which is taking place for three days before the start of the 70th session General Debate of the United Nations General Assembly at United Nations headquarters in New York, New York, USA, 26 September 2015 (released on 19 April). King Mswati III announced renaming his country to 'Kingdom of eSwatini' during a national celebration marking 50 years of independence of British colonial rule, on 18 April. In Swazi language 'eSwatini' means 'place of the Swazi.'  EPA-EFE/JUSTIN LANE
Mswati III breytti nafni Svasílands í Eswatini árið 2015. Mynd: epa
Í Eswatini, einu síðasta konungsríki Afríku og því eina þar sem konungur ríkir sem einvaldur, var öllum skólum lokað í gær „um óákveðinn tíma og tafarlaust.“ Ástæðan er mikil og öflug mótmælaalda, knúin áfram af nemendum gagnrfræða-, framhalds- og háskóla landsins, sem krefjast aukins lýðræðis. Stúdentamótmælin hafa staðið vikum saman og hafa nemar skrópað í skólanum, kallað eftir ókeypis menntun fyrir alla, auknu lýðræði og skjótum enda á langri valdatíð konungsins Mswati III.

„Ríkisstjórn hans hátignar hefur tekið þá ákvörðun að loka skólum landsins án frekari tafar,“ sagði forsætisráðherrann Cleopas Slamini í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á laugardag. AFP-fréttastofan hefur eftir ungmennum úr hópi mótmælenda að her- og lögreglulið hafi verið sent í skólana í liðinni viku og að nokkur fjöldi nema hafi verið handtekinn í þeim aðgerðum.

Blóðug mótmæli frá því um mitt sumar

Almenningur, félagasamtök og hópar stjórnarandstæðinga efndu til mótmæla í tveimur stærstu borgum landsins, Mansini og Mbabane, í júní síðastliðnum. Þúsundir flykktust út á götur og torg borganna tveggja og sums staðar þróuðust mótmælin út í óeirðir þar sem skemmdarverk voru unnin og fólk fór ránshendi um verslanir og fyrirtæki.

Minnst 28 létu lífið í átökunum sem þá brutust út milli mótmælenda og lögreglu og eru á með þeim blóðugustu í sögu konungsríkisins. Í september tók námsfólk að herða á mótmælaðgerðum á ný eftir nokkurt hlé og haldið þeim áfram síðan. Lögregla og her hafa mætt þeim af hörku og síðasta dauðsfallið í tengslum við mótmælin varð síðasta miðvikudag.

Konungurinn Mswati hefur ríkt í Eswatini, sem áður hét Swaziland, frá 1986 og stjórnmálaflokkar hafa verið bannaðir í landinu frá 1973.  

Fréttin hefur verið leiðrétt. Í upprunalegri færslu stóð að Eswatini væri síðasta konungsríki Afríku. Hið rétta er að það er eitt af þremur konungsríkjum álfunnar, en það eina þar sem konungur er einvaldur. Bæði í Lesótó og Marokkó er þingbundin konungsstjórn, þótt Marokkókonungur sé vissulega valdamikill. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV